Markaðsvirði hlutabréfa í kauphöll Íslands féll í gær, en mest var lækkunin á bréfum Icelandair, Marels og Össurar, þriggja stærstu félaganna í kauphöllinni.
Icelandair lækkaði um 2,13 prósent, Marel um 1,76 prósent og Össur um 1,16 prósent. Markaðsvirði Icelandair er nú 125 milljarðar króna, samkvæmt Keldunni. Marel er næst verðmætasta félagið í kauphöllinni, en markaðsvirði þess um þessar mundir er 179 milljarðar króna.
Verðmætasta félagið er Össur en markaðsvirði þess er 189 milljarðar. Samanlagt virði félaga í kauphöllinni er ríflega 950 milljarðar króna og eiga lífeyrissjóðir landsmanna 40 til 50 prósent allra skráðra hlutabréfa á markaði.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans á dögunum á eru þessi þrjú félög þau verðmætustu í kauphöllinni, og þegar heildar eigið fé félaganna er samantekið, þá nemur það 426,9 milljörðum króna. Af því eru 160 milljarðar frá Marel, Össuri og Icelandair.
Styrking krónunnar vinnur ekki með þessum félögum þar sem þau eru með efnahag í erlendri mynt. Icelandair og Össur í Bandaríkjadal en Marel í evrum.
Gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert að undanförnu. Evran kostar nú 126 krónur og Bandaríkjadalur 113 krónur. Fyrir ári var staðan sú að evran kostaði 150 krónur en Bandaríkjadalur 136.
Pundið hefur síðan veikst mikið gagnvart helstu viðskiptamyntum eftir að almenningur samþykkti útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í sumar. Pundið kostar nú 140 krónur en kostaði 206 krónur fyrir rúmlega ári síðan.
Hlutabréf í kauphöllinni hafa heldur lækkað að undanförnu, samhliða styrkingu krónunnar, þó ekki sé hægt að fullyrða um beint orsakasamhengi þar á milli.