Hæstiréttur felldi í dag niður mál sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni í hinu svokallaða Sterling-máli. Ástæðan er seinagangur hjá ríkissaksóknara, sem skilaði ekki greinargerð í málinu fyrr en eftir að frestur til þess var liðinn. Samt hafði verið veittur aukafrestur til þess að skila greinargerð. Hannes hafði verið sýknaður í málinu í héraðsdómi.
Þegar málsgögnin bárust Hæstarétti voru meira en ellefu ár liðin frá ætluðu broti, nærri átta ár frá upphafi rannsóknar og rúmir sautján mánuðir frá því að ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til að fá hnekkt héraðsdómi um sýknu. „Ákæruvaldið hefur ekki veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna það tók svo langan tíma að útbúa málsgögn og skila þeim til Hæstaréttar. Þegar málsgögnin loks bárust réttinum voru liðin meira en ellefu ár frá ætluðu broti, nærri átta ár frá upphafi rannsóknar og rúmir sautján mánuðir frá því að ríkissaksóknari gaf út áfrýjunarstefnu til að fá hnekkt héraðsdómi um sýknu ákærða. Þessar gífurlegu og óútskýrðu tafir á málinu gáfu enn ríkari ástæðu en endranær til þess að rekstur málsins færi ekki frekar úr skorðum hvað málshraða varðar,“ segir í dómi Hæstaréttar.
Hannes var í lok október 2013 ákærður fyrir fjárdrátt fyrir að láta millifæra tæplega þrjá milljarða króna af bankareikningi FL Group í útibúi Danske Bank í New York og inn á nýjan bankareikning FL Group hjá Kaupþingi í Lúxemborg sem Hannes hafði látið stofna fimm dögum áður. Samkvæmt sérstöku umboði hafði Hannes fullt og ótakmarkað umboð til ráðstafana á fjármunum félagsins á þeim bankareikning.
Fjármunirnir voru sama dag færðir frá nýja bankareikningnum yfir á bankareikning Fons eignarhaldsfélags, í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Þar var fjárhæðinni skipt í danskar krónur og í kjölfarið lagðar inn á félagið Fred. Olsen & Co., þáverandi eiganda flugfélagsins Sterling Airlines. Milljarðarnir þrír mynduðu því stóran hluta af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons greiddi fyrir kaup á Sterling á þessum tíma.
Á þessum tíma var FL Group almenningshlutafélag í eigu rúmlega fjögur þúsund aðila.
Á meðal þeirra gagna sem lágu til grundvallar ákærunni eru gögn frá Lúxemborg sem sýndu að fé FL Group hafi ratað inn á reikning Fons. Það fé var síðan notað til að kaupa Sterling. Þessara gagna var aflað með réttarbeiðni frá Lúxemborg og vegna þeirra var Hannes aðallega ákærður fyrir fjárdrátt, en til vara fyrir umboðssvik.
Málinu var vísað frá héraðsdómi í mars 2014 með þeim rökum að háttsemin sem Hannesi var gefin að sök í ákærunni hafi ekki verið lýst með fullnægjandi hætti. Sérstakur saksóknari áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar felldi úrskurð héraðsdóms og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Hann var svo sýknaður í héraðsdómi sem fyrr segir.