Ríkisstjórn Skotlands ætlar að leggja fram nýtt frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins í næstu viku. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og formaður Skoska þjóðarflokksins, greindi frá þessu í ræðu sem hún hélt á flokksþingi hans í dag og The Guardian greinir frá.
Þar sagði Sturgeon að hún sé ákveðin í því að Skotland fái tækifæri til að endurmeta spurninguna um sjálfstæði og og landar hennar eigi að fá tækifæri til að gera það áður en að Bretland yfirgefur Evrópusambandið, sé það nauðsynlegt til að vernda hagsmuni þjóðarinnar. „Ég get því staðfest hér í dag að frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði verður lagt fram í næstu viku.“
Sturgeon sagði enn fremur að það liði ekki sá dagur sem að einhver kæmi ekki til hennar og viðhafði hvatningu um að flýta nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liði heldur ekki dagur sem að einhver kæmi upp að henni og hvatti hana til að hægja á því ferli. „Velkomin í minn veruleika. En ábyrgð leiðtoga er að framkvæma með hagsmuni landsins sem heildar að leiðarljósi. Morgunin eftir þjóðaratkvæðið um Evrópusambandið [Brexit] sagði ég að ég myndi stýrast af mjög einfaldri og skýrri spurningu. Hvað er best fyrir íbúa Skotlands? Það er meginreglan sem ég stjórnast enn að og ég veit að ég treyst á stuðning ykkar við hvert einasta skref sem stigið verður.“
Skoski þjóðarflokkurinn kaus einnig Angus Robertson sem varaformann flokksins á flokksþinginu. Robertson hefur komið til Íslands og lýst yfir miklum vilja til að auka samstarf Skotlands við Ísland.
Brexit breytti öllu
Skotar kusu um sjálfstæði frá Bretum árið 2014. Þá varð niðurstaðan sú að 55,3 prósent Skota sögðu nei við sjálfstæði en 44,7 prósent vildu sjálfstæði. Kjörsókn var 84,5 prósent. Í aðdraganda kosninganna var afar mjótt á munum og talið er að á endanum hafi loforð um aukin völd til skoska þingsins ráðið úrslitum. Skoski þjóðarflokkurinn, sem setti þjóðaratkvæði um sjálfstæði á dagskrá, vann síðan sannkallaðan stórsigur í bresku þingkosningunum í fyrra þegar hann fór úr því að hafa 6 af 59 þingsætum Skotlands í Westminster og í það að hafa 56 af 59 sætum.
Í sumar breyttist síðan allt í breskum stjórnmálum þegar Bretar kusu með því að yfirgefa Evrópusambandið í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, Úrslitin sýndu gríðarlega skiptingu milli svæða í Bretlandi. Í öllu Skotlandi, á Norður-Írlandi og í höfuðborginni London var yfirgnæfandi meirihluti kjósenda fylgjandi því að halda áfram í ESB, en fyrir utan London var meirihluti fyrir útgöngu úr ESB víðast hvar í Englandi. 62 prósen Skota vildu halda áfram í ESB, 55,8 prósent N-Íra og 59,9 prósent íbúa London. Annars staðar í Englandi vildur 57 prósent yfirgefa ESB og 52,5 prósent íbúa í Wales.
Á endanum voru þeir sem vildu áframhaldandi veru Bretlands í ESB rétt undir 48 prósent og þeir sem vildu yfirgefa ESB rétt undir 52 prósent.
Nicola Sturgeon sagði strax daginn eftir Brexit-kosningarnar að hún teldi mjög líklegt að þess verði krafist að skoska þingið hafi möguleikann á því að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Það gæti gerst innan tveggja ára, á sama tímabili og samið verður um samband Bretlands við Evrópusambandið. Hún sagði þó nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar, hún ætlaði að byrja á því að ræða við Evrópusambandið um alla möguleika á því að halda Skotlandi innan ESB. Það væri skýr vilji Skota að vera áfram í Evrópusambandinu.
Nú hefur fyrsta skrefið í átt að slíkri atkvæðagreiðslu verið stigið, örfáum mánuðum eftir Brexit-kosningarnar.