Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, hefur stöðu sakbornings í rannsókn setts héraðssaksóknara. Þetta kemur fram á vef RÚV, og er staðfest af Lúðvíki Bergvinssyni, settum saksóknara.
Alda Hrönn er sökuð um að hafa misbeitt lögregluvaldi við rannsókn á LÖKE-málinu, en tveir sakborningar í málinu kærðu hana fyrir rangar sakargiftir og brot í starfi í apríl. Við rannsókn LÖKE-málsins var Alda Hrönn yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum.
Alda Hrönn sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í gær, þar sem kom fram að hún vísi alfarið á bug öllum ásökunum sem séu tilefni rannsóknarinnar á sér. „Sú aðkoma sem ég hafði að umræddu máli féll undir starfsskyldur mínar í mínu fyrra starfi.“ Rannsóknir á brotum lögreglumanna í starfi hafi verið á forræði Ríkissaksóknara samkvæmt lögum, en embætti Ríkissaksóknara hafi óskað eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum við meðferð málsins. „Ég kom eingöngu að umræddu máli sem löglærður fulltrúi. Rannsókn málsins leiddi til þess að embætti Ríkissaksóknara höfðaði sakamál á hendur lögreglumanninum sem lauk með því að Hæstiréttur Íslands sakfelldi hann fyrir brot í starfi,“ sagði Alda Hrönn. Hún sagði lögbundna þagnarskyldu koma í veg fyrir að hún geti tjáð sig frekar, en að hún hafi rækt starfsskyldur sínar af fyllstu fagmennsku og í samræmi við meðferð slíkra mála. „Ég hef skilning á að fólk leiti réttar síns finnist því á sér brotið. Á hinn bóginn þykir mér hart að sæta rannsókn fyrir það eitt að sinna starfi mínu í samræmi við starfsskyldur mínar.“
Bent er á það á vef RÚV, að lögreglumaðurinn sem var dæmdur var aðeins dæmdur fyrir að deila persónuupplýsingum til félaga síns á Facebook, í máli sem tengdist ekki upplýsingum úr LÖKE-kerfi lögreglunnar. Veigamesti ákæruliðurinn í LÖKE-málinu var felldur niður þar sem gögnin sem ákæran byggðist á reyndust ekki rétt.