57% Íslendinga eru hlynnt því að flokkar gefi það upp fyrir kosningar með hverjum þeir hafa mestan áhuga á að vinna með ef þeir komast í ríkisstjórn. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar Maskínu. Meirihluti kjósenda allra flokka nema stjórnarflokkanna tveggja er hlynntur þessu fyrirkomulagi.
Tæp 28% eru mjög hlynnt því að flokkar kynni mögulega samstarfsmöguleika fyrir kosningar á meðan 29% eru frekar hlynnt því. 24,3% segjast vera í meðallagi, hlynnt eða andvíg, en á bilinu 18 til 19 prósent eru andvíg, þar af 7% mjög andvíg.
Kjósendur Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri-grænna eru einna helst hlynntir því að flokkar gefi það upp fyrir kosningar með hverjum þeir geti helst hugsað sér að vinna, á meðan kjósendur ríkisstjórnarflokkanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru einna helst andvígir svona fyrirkomulagi. Hlutfall hlynntra fer hæst hjá kjósendum Samfylkingarinnar, í tæp 90%. Tæplega 83% kjósenda Pírata eru hlynntir þessu fyrirkomulagi, 79% kjósenda VG, 65% kjósenda Bjartrar framtíðar og 54% kjósenda Viðreisnar. Hins vegar eru 24% kjósenda Sjálfstæðisflokksing og tæp 18% kjósenda Framsóknarflokksins á því að flokkarnir eigi að gefa upp fyrir kosningar með hverjum þeir hafi mestan áhuga á að vinna með í ríkisstjórn.
Marktækur munur var á skoðunum fólks eftir kjördæmum, og þannig eru kjósendur í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi áberandi andvígari því að flokkar gefi upp mögulega samstarfsflokka fyrir kosningar.
Eftir því sem fólk hefur meiri menntun er það hlynntara því að flokkarnir gefi upp möguleikana, en 67,5% þeirra sem hafa framhaldsnám í háskóla eru hlynntir því, á meðan 47,6% þeirra sem eru með grunnskólapróf eru það.