Samfylkingin mælist með eins prósents fylgi í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, samkvæmt nýjustu könnun MMR. Fylgi flokksins hækkar með hækkandi aldri, og er 12% meðal 68 ára og eldri. Það er fjögur prósent í aldurshópnum 30 til 49 ára og 10 prósent meðal 50 til 67 ára.
Sama þróun er hjá Sjálfstæðisflokknum, hann er með minnsta fylgið í yngsta aldurshópnum og það fer svo hækkandi eftir því sem fólk eldist. Flokkurinn mælist með 18% fylgi meðal 18 til 29 ára, 24% meðal 30 til 49 ára, 28% meðal 50 til 67 ára og 34% meðal 68 ára og eldri.
Þróunin er öfug hjá Pírötum og Bjartri framtíð, þótt hún sé mun meira áberandi hjá Pírötum. Þeir eru með 33% fylgi í yngsta aldurshópnum, 26 prósent í þeim næstyngsta, 30 til 49 ára. Meðal 50 til 67 ára er fylgið komið niður í níu prósent og er svo sjö prósent meðal 68 ára og eldri.
Hjá Bjartri framtíð er fylgið 10 prósent meðal 18 til 29 ára, átta prósent meðal 30 til 49 ára en fer svo niður í fjögur prósent meðal 50 til 67 ára og þrjú prósent hjá 68 ára og eldri.
Vinstri græn mælast líka með mest fylgi hjá elsta aldurshópnum, 23%. Þau eru með frekar jafnt fylgi í öðrum aldurshópum, 15-16%.
Framsóknarflokkurinn er með langmest fylgi meðal fólks á aldrinum 50 til 67 ára, 17%. Flokkurinn er með 10 prósent hjá 18 til 29 ára, níu prósent hjá 30 til 49 ára og átta prósent í elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri.
Viðreisn er með fremur jafnt fylgi í öllum aldurshópum nema þeim elsta, þar sem flokkurinn mælist aðeins með þriggja prósenta fylgi. Meðal 18 til 29 ára er fylgið 10%, níu prósent hjá 30 til 49 ára og 11 prósent hjá 50 til 67 ára.
MMR veltir því upp að ef kosningaþátttaka yngra fólks verður hlutfallslega minni en eldra fólks, eins og gerst hefur í fyrri kosningum, má leiða líkur að því að kjörfylgi flokka sem ná betur til yngra fólks verði lægra en könnunin gefur til kynna.
Mikill munur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis
Hjá sumum flokkum er mjög mikill munur á fylginu eftir því hvort fólk býr á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Það á einkum við hjá Framsóknarflokknum og Viðreisn. Framsóknarflokkurinn mælist þannig með 24% fylgi á landsbyggðinni en aðeins 5% á höfuðborgarsvæðinu. Hjá Viðreisn er þessu öfugt farið, flokkurinn er með 12% fylgi á höfuðborgarsvæðinu en aðeins þrjú prósent á landsbyggðinni.
Píratar eru með 22% fylgi á höfuðborgarsvæðinu en 17% á landsbyggðinni, Sjálfstæðisflokkurinn er með nánast sama fylgi á höfuðborgarsvæðingu og landsbyggðinni, og Björt framtíð og Samfylkingin eru með sjö prósent á höfuðborgarsvæðinu og fimm prósent á landsbyggðinni. Vinstri græn eru með 15% á höfuðborgarsvæðinu en 18% á landsbyggðinni.
Kynjamunur hjá VG og Framsókn
Mikill munur er á kynjum hjá kjósendum Vinstri grænna og Framsóknar. Níu prósent karla ætla að kjósa VG en 24% kvenna. 17% karla ætla aftur á móti að kjósa Framsókn en aðeins fimm prósent kvenna.
Fleiri karlar ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn en konur, 27% á móti 22%. Sömu sögu er að segja hjá Pírötum, 23% karla og 18% kvenna ætla að kjósa flokkinn. Hjá Viðreisn eru 10% karla og sjö prósent kvenna, en hjá Bjartri framtíð og Samfylkingu eru konur fleiri. Átta prósent kvenna og fimm prósent karla ætla að kjósa Bjarta framtíð og átta prósent kvenna og fjögur prósent karla ætla að kjósa Samfylkingu.