Sjálfstæðisflokkurinn hefur 29,5 prósent fylgi og 21 þingmann, þegar þetta er ritað (3:54), og telst ótvíðræður siguvegari Alþingiskosninganna sé horft til heildarfylgis flokkanna. Vinstri græn bæta hins vegar við sig 5 þingmönnum og Píratar 6.
Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, er fallin þar sem Framsókn er ekki með nema 11,4 prósent fylgi og 8 þingmenn. Til þess að fá meirihluta þurfa ríkisstjórnarflokkarnir að fá samtals 32 þingmenn, en samtals eru 63 þingmenn á Alþingi, en flokkarnir ná 29 þingmenn.
Vinstri græn eru með 16,2 prósent á landsvísu og 11 þingmenn, Björt framtíð 7,4 prósent og fjóra þingmenn, Píratar 13,6 prósent og 9 þingmenn og Samfylkingin 6,1 prósent og fjóra þingmenn. Viðreisn, sem kemur ný inn á þing, er með 10,2 prósent fylgi og fengi sex þingmenn.
Óhætt er að segja að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin séu þeir tveir flokkar sem koma verst út úr kosningunum. Í kosningunum 2013 var Framsóknarflokkurinn sigurvegari kosninganna með tæplega fjórðungs fylgi en Samfylkingin fékk í þeim kosningum sína verstu kosningu frá stofnun með ríflega 12 prósent fylgi. Útkoman er enn verri nú, en fylgið er nú 6,1 prósent.
Allt stefnir í að útkoma Framsóknarflokksins verði sú versta í 100 ára sögu flokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í spjalli formanna flokksins í sjónvarpssal að eðlilegast væri að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi næstu ríkisstjórn, í ljósi kosninganna, en að öðru leyti gaf hann ekki neinar afgerandi yfirlýsingar um hvernig hann vildi skipa næstu ríkisstjórn.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði skilaboð kosninganna vera þau að óskað væri eftir fjölbreytni í stjórnmálunum. Á það þyrfti að hlusta.