„Ég vil taka það skýrt fram að ég gleðst þegar launafólk hækkar í launum en það skal þá líka gilda fyrir alla ekki bara suma. Vil minna á að verkafólk hækkaði um heilar 25 þúsund krónur á mánuði í síðustu kjarasamningum og margir ráðamenn töldu það myndi leiða til óðaverðbólgu en nú fá sumir ráðamenn launahækkun sem nemur 500 þúsund á mánuði og að sjálfsögðu á það ekki að hafa nein áhrif á verðbólgu, stöðuleika né höfrungahlaup. Djöfull sem manni finnst hræsnin vera allsráðandi í okkar ágæta landi,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, á Facebook síðu sinni um þá ákvörðun kjararáðs að hækka launa ráðamanna, forseta Íslands, alþingismanna og ráðherra, um mörg hundruð þúsund krónur á mánuði.
Þá segir Vilhjálmur enn fremur að greinilegt sé að hjá ráðamönnum sé ekkert Salek-samkomulag í gildi, þar sem hóflegar launahækkanir eru forsenda aðferðafræðinnar.
Kjararáð hittist á fundi á kjördag, 29. október, og tók þá ákvörðun um að hækka laun forseta Íslands, alþingsmanna og ráðherra.
Samkvæmt úrskurði kjararáðs verða laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna verður 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru áður tæpar 2,5 milljónir.
Í kjararáði sitja Jónas Þór Guðmundsson, sem jafnframt er formaður, Óskar Bergsson, Hulda Árnadóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Svanhildur Kaaber.
Í úrskurðarorðum segir meðal annars að mikilvægt sé að æðstu embættismenn séu fjárhagslega sjálfstæðir. „Afar mikilvægt er að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir. Störf þeirra eiga sér ekki skýra hliðstæðu á vinnumarkaði enda eru þeir kjörnir til starfa í almennum kosningum og þurfa að endurnýja umboð sitt að minnsta kosti á fjögurra ára fresti. Forseta Íslands, ráðherrum og þingmönnum hafa ekki verið ákvarðaðar sérstakar greiðslur fyrir vinnu utan hefðbundins dagvinnutíma, þrátt fyrir að störf þeirra fari að hluta til fram utan hans,“ segir í úrskurðinum.