Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju og til vinstri. Hún væri reiðubúin til að leiða slíka stjórn. Hún er búin að funda með forseta Íslands þar sem hún sagði honum þetta. Að öðru leiti vill hún lítið tjá sig um fund sinn við forsetann.
„Við erum tilbúin til að taka þátt í og jafnvel leiða fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri...Þetta væri minn fyrsti kostur, að mynda slíka stjórn,“ sagði Katrín við fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund hennar með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafa báðir lýst því yfir að þeir vilji fá stjórnarmyndunarumboðið. Bjarni var fyrstur formanna til að hitta forsetann á Bessastöðum í morgun. Hann sagði við fjölmiðla eftir fund þeirra að hann væri bjartsýnn á að geta myndað þriggja flokka stjórn. Hann sagðist gera ráð fyrir því að heyra frá forsetanum á næstu dögum.
Formenn flokkanna funda allir með forsetanum í dag, en nú eru Píratar á fundi með honum. Næst kemur Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og svo Benedikt Jóhannesson. Þá fer Óttarr Proppé á fund forsetans og loks Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.