Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, lagði til við forseta Íslands að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, fái stjórnarmyndunarumboð. Þetta sagði Óttarr við fréttamenn á Bessastöðum að loknum fundi hans og Evu Einarsdóttur, stjórnarformanns flokksins, með Guðna Th. Jóhannessyni forseta. Þetta kemur fram á Vísi.
Óttarr sagði að hugmyndin um ríkisstjórn Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins væri ágæt, rétt eins og tillaga um breiða stjórn frá miðju til vinstri með stuðningi Pírata og Samfylkingar. Síðarnefndi möguleikinn væri flóknari en þó væri vert að skoða hann nánar. Hann sagðist sjá mikla möguleika á samvinnu og ákveðna samlegð með Bjartri framtíð og Viðreisn.
Fyrr í dag hafði komið fram að Óttarr hafi rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um möguleikann á stjórn flokka þeirra og Viðreisnar. Bjarni sagði í morgun að honum hugnaðist að reyna að mynda þriggja flokka stjórn og honum þætti eðlilegt að hann fengi til þess stjórnarmyndunarumboð.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur líka lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að leiða myndun fimm flokka stjórnar frá miðju og til vinstri, og að hún teldi það fyrsta kostinn.
Píratar komu hins vegar á fund forseta Íslands með þá hugmynd að Vinstri græn, Björt framtíð og Viðreisn mynduðu minnihlutastjórn sem Píratar og Samfylkingin myndu verja falli.
Nú er Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, á fundi forsetans, en hún er síðustu leiðtoganna til að funda með honum.