Píratar eru tilbúnir til þess að styðja minnihlutastjórn þriggja flokka, Viðreisnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar. Þetta kom fram í máli Birgittu Jónsdóttur, Smára McCarthy og Einars Brynjólfssonar eftir fund þeirra með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, nú eftir hádegi.
Úrslit kosninganna bera það með sér að verið er að kalla eftir meiri breidd í stjórnskipan landsins en áður hefur þekkst, sagði Birgitta við blaðamenn fyrir utan Bessastaði. Sú hugmynd var rædd á þingflokksfundi Pírata í gærkvöldi að flokkurinn myndi verja minnihlutastjórn VG, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar falli. Skilyrði fyrir því þyrfti að vera að Samfylkingin gerði slíkt hið sama, því annars er ekki meirihluti.
Þau segjast ekki gera kröfu um að sitja í ríkisstjórn, fyrst og fremst flækjustigsins vegna. Það væri flókið að ef formenn fimm flokka myndu eiga sæti við ríkisstjórnarborðið. Þetta útspil væri því til þess fallið að skapa frið og stöðugleika.
Fyrr í morgun fundaði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, með forsetanum. Þar tjáði hún honum að hún vill mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju og til vinstri. Hún væri reiðubúin til að leiða slíka stjórn.
„Við erum tilbúin til að taka þátt í og jafnvel leiða fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri...Þetta væri minn fyrsti kostur, að mynda slíka stjórn,“ sagði Katrín við fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund hennar með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafa báðir lýst því yfir að þeir vilji fá stjórnarmyndunarumboðið. Bjarni var fyrstur formanna til að hitta forsetann á Bessastöðum í morgun. Hann sagði við fjölmiðla eftir fund þeirra að hann væri bjartsýnn á að geta myndað þriggja flokka stjórn. Hann sagðist gera ráð fyrir því að heyra frá forsetanum á næstu dögum.