Rétt um 18% kjósenda Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi strikuðu yfir nafn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, oddvita flokksins, eða færðu hann neðar á lista. Þetta voru 817 atkvæði, en hefðu þau orðið 909 talsins, eða 20%, hefði Sigmundur Davíð færst niður um sæti.
Þetta kemur fram í skýrslu yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi til landskjörstjórnar. 1.253 kjörseðlum var breytt í heildina, svo að langstærstur hluti útstrikana varðaði Framsóknarflokkinn og Sigmund Davíð.
Næstflestir strikuðu yfir eða færðu Steingrím J. Sigfússon, oddvita Vinstri grænna, neðar á listann. 155 manns gerðu það, eða 3,4% kjósenda flokksins. 127 manns strikuðu yfir Björn Val Gíslason, þriðja mann á lista VG, eða 2,8%.
Aðrir frambjóðendur í kjördæminu voru strikaðir út innan við 100 sinnum. Áður hefur komið fram að hlutfall útstrikana var mjög hátt miðað við það sem áður hefur verið.