„Í lögum um kjararáð er skýrt kveðið á um að ráðið skuli ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Þetta ákvæði hefur ráðið að engu haft í úrskurði um þingfararkaup og í úrskurðum um laun embættismanna undanfarið ár,“ segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði, vegna ákvörðunar kjararáðs um að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands um tugi prósenta, en ákvörðunin var tekin á kjördag, 29. október. Í ráðinu sitja Jónas Þór Guðmundsson, Óskar Bergsson, Svanhildur Kaaber, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Hulda Árnadóttir.
Hagsmunasamtök á vinnumarkaði, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og hjá hinu opinbera og atvinnurekendum, hafa mótmælt ákvörðuninni harðlega, og hefur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri krafist þess að hún verði afturkölluð.
Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að ákvörðunin kjararáðs sé ekki í samræmi við launaþróun á vinnumarkaði. „Ákvörðun kjararáðs um
launahækkanir þingmanna og ráðherra er í engu samhengi við almenna þróun á
vinnumarkaði, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Standi ákvörðunin
er vinnumarkaðurinn settur í fullkomið uppnám með tilheyrandi tjóni fyrir almenning
og atvinnulíf,“ segir í tilkynningunni.
Þá er ítrekuð áskorun til Alþingis um að hafa ákvörðunum kjararáðs.
„Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands skora á nýtt Alþingi að hafna nýlegum ákvörðunum kjararáðs og leggja málið í sáttaferli. Með því er bæði átt við úrskurði um þingfararkaup og laun ráðherra sem og nýlega úrskurði um ríflegar hækkanir á launum embættismanna. Að öðrum kosti er borin von að aðilar vinnumarkaðarins geti haldið áfram vegferð sinni um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð, ferli sem kennt hefur verið við Salek,“ segir í tilkynningunni.
Stór verkefni í uppnámi
Umbætur á vinnumarkaði eru í tilkynningunni sagðar stærsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Takist stjórnvöldum ekki að uppfylla forsendur Salek-samkomulagsins munu kjaradeilur raska efnahagslegu jafnvægi og standa í vegi fyrir öðrum mikilvægum uppbyggingarverkefnum. „Lífskjarabati síðustu ára á sér fá fordæmi. Kaupmáttur launa hefur aukist um 20% á síðustu þremur árum. Á sama tíma hafa skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera hafa lækkað hratt. Sterkur hagvöxtur og hagfelldar ytri aðstæður hafa gert þessa þróun mögulega án neikvæðra áhrifa á verðlag. Til að unnt verði að varðveita þennan árangur þurfa launahækkanir næstu ára að þróast í samræmi við getu hagkerfisins til að standa undir þeim Á undanförnum árum hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt í mikla vinnu við endurskipulagningu á fyrirkomulagi kjarasamningagerðar. Grundvöllur þeirrar vinnu eru markmið um aukinn stöðugleika, lækkun vaxta og stöðugt verðlag. Þannig má bæta kjör heimilanna og styrkja rekstrargrundvöll íslenskra fyrirtækja með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Nýlegar ákvarðanir kjararáðs eru í fullkominni andstöðu við þessa stefnumörkun,“ segir enn fremur.
Samkvæmt úrskurði kjararáðs verða laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna verður 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 1.826.273 krónur á mánuði. Laun forsætisráðherra voru áður tæplega 1,5 milljónir en laun forseta voru tæpar 2,5 milljónir.