Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur boðað Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á sinn fund klukkan 11 í dag. Að því loknu mun forsetinn ræða við fjölmiðla.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu. Fastlega má því búast við því að forseti Íslands ætli að veita Bjarna stjórnarmyndunarumboð.
Guðni hitti alla formenn flokka sem náðu kjöri á Alþingi á fundum á mánudag. Í gær ræddi hann við nokkra þeirra í símann.
Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, höfðu öll lýst því yfir að þau væru reiðubúin að leiða stjórnarmyndunarviðræður.
Haft er eftir Benedikt í Fréttablaðinu í dag að erfitt sé að mynda ríkisstjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokksins, sem hafi þriðjung þingmanna.