Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist ekki hafa beðið um launahækkun og hann þurfi ekki launahækkun. „Ég vænti þess að þingið vindi þá ofan af þessari ákvörðun og taki það í sínar hendur og ég myndi sætta mig fullkomlega við þær lyktir,“ sagði Guðni Th. á blaðamannafundi sínum að loknum fundi með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.
Þar ræddi hann um ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun hans, líkt og ráðherra og alþingismanna.
„Þangað til sé ég til þess að þessi hækkun renni bara alls ekki í minn vasa,“ sagði forsetinn. Hann var þá spurður hvert hækkunin myndi renna. Hann spurði þá fjölmiðlamenn hvort hann þyrfti að greina frá því. „Á ég að vera einhver móðir Teresa sem gortir sig af því?“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það vel koma til greina að þingið grípi inn í ákvörðun Kjararáðs. „Ég hef fullan skilning á því að fólki þyki þetta vera úr öllum takti við það sem hefur verið að gerast á almennum vinnumarkaði.“
Hann sagði að mögulega væri nauðsynlegt í ljósi aðstæðna að Alþingi grípi inn í og stöðvi launahækkanir. Komi til þess að þingið grípi inn í þessi mál þá þyki honum nauðsynlegt að reynt verði að skapa grundvöll fyrir varanlega lausn á þessum málum. Hans skoðun væri sú að aðeins þeir sem ekki geti samið um kjör sín eigi að heyra undir Kjararáð. Hann vilji að lögum um Kjararáð verði breytt með mjög róttækum hætti, og þessi mál séu ekki í nægilega góðum farvegi eins og er.