„Mín fyrstu skref verða að eiga samtöl við formenn annarra flokka, og ég mun reyna að nýta tímann vel,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Bessastöðum að loknum fundi hans með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.
Hann sagði eðlilegt að það taki tíma að ná saman, sérstaklega þegar fyrir liggi að ekki sé hægt að mynda tveggja flokka stjórn. „Ég er ekki með neina fyrirfram gefna niðurstöðu og ekki neina valkosti fyrirfram.“ Hann sagði að eftir því sem dagarnir líði verði menn aðeins afslappaðri. Honum hafi þótt skrýtið að flokkar hafi lýst yfir að vilji væri til breiðara samstarfs en svo væru menn svo uppteknir af því að útiloka hvern annan. Hann sagðist hins vegar bjartsýnn á að hægt væri að líta til lengri tíma inn í framtíðina.
Hann var spurður um möguleikann á stjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og sagði það augljóslega einn möguleikann í stöðunni. „Gallinn við þann möguleika er hversu knappur meirihluti það er,“ en flokkarnir þrír hafa 32 þingmenn samanlagt.
Bjarni sagðist ekki útiloka Framsóknarflokkinn í sínum viðræðum, það komi alveg til greina að flokkurinn eigi aðild að ríkisstjórn. Hann hafi átt mjög gott samstarf við forystu flokksins. „Það er fullur vilji til að ræða við Framsóknarflokkinn.“