Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) hefur á árunum 2013, 2014 og 2015 greitt 885,4 milljónir króna í sérfræðiþjónustu, en samkvæmt svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kjarnans þá neitar bankinn að upplýsa um hvaða sérfræðingar þetta hafa verið sem bankinn keypti þjónustu af á fyrrgreindu tímabili.
Kjarninn hefur óskað eftir því að bankinn rökstyðji neitunina með vísun í lög, svo það liggi skýrt fyrir á hvaða grunni bankinn neitar að upplýsa um hvaða sérfræðingar það voru sem fengu fyrrnefndar 885,4 milljónir. Er lögfræðingur Seðlabankans nú að því að búa það svar til, samkvæmt upplýsingum frá bankanum.
Á árinu 2013 greiddi ESÍ sérfræðingum 257,9 milljónir króna, á árinu 2014 358,7 milljónir og árinu 2015 268,8 milljónir.
Laun og launatengd gjöld félagsins á fyrrnefndu tímabili voru umtalsvert minni en upphæðirnar sem fóru til sérfræðinga eða sem nemur 525,2 milljónum króna. Á árinu 2013 voru launin 72,4 milljónir, á árinu 2014 201,8 milljónir og á árinu 2015 251 milljón.
Á árinu 2014 jókst rekstrarkostnaður samstæðu ESÍ þegar dótturfélag ESÍ, Hilda ehf., tók yfir fyrirtækjalán og fullnustueignir Dróma.
Eins og fram í grein Kjarnans 29. janúar á þessu ári þá átti ESÍ eignir upp á 200,8 milljarða króna um mitt ár í fyrra, en síðan þá hafa orðið miklar breytingar, einkum vegna uppgjörsins á slitabúum föllnu bankanna, en stór hluti eigna ESÍ voru kröfur á búin og eignasöfn sem rekja má til hrunsins.
Félagið Lindarhvoll ehf. heldur nú utan um eignir sem komu í skaut ríkisins með stöðugleikaframlögum slitabúanna, og er unnið að sölu þeirra eins og áður hefur verið greint frá.