Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að það hafi ekki verið rætt á fundi hans og Óttarrs Proppé, formanns Bjartrar framtíðar, með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, á miðvikudag að hann yrði forsætisráðherra. Því var haldið fram á forsíðu Fréttablaðsins að sú hugmynd hefði verið viðruð á fundinum. Benedikt segir að fundurinn hafi staðið í klukkutíma og þar hafi verið farið yfir þá stöðu sem er uppi við mögulega stjórnarmyndun. Katrín hafi þar farið yfir afstöðu sína gagnvart samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á sömu nótum og hún hafi gert opinberlega, að það beri mest í milli flokks hennar og Sjálfstæðisflokksins.
Benedikt segir einnig rangt, sem fram kom í forsíðufrétt Fréttablaðsins, að hann hafi falast eftir stuðningi Pírata til að fá stjórnarmyndunarumboð áður en það hafi verið afhent Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi rætt einu sinni við Birgittu Jónsdóttur, þingmann Pírata, eftir kosningar í síma. Þá hafi hún hringt í sig til að upplýsa um þá afstöðu Pírata að þeir væru tilbúnir að verja minnihlutastjórn frá miðju til vinstri. Önnur samtöl hafi hann ekki átt við Pírata um stjórnarmyndanir.