Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand sendu tvö bréf til þess að reyna að fjárkúga fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Þetta kemur fram í ákæru á hendur þeim, sem Stundin birti í gærkvöldi.
Fyrra bréfið setti Hlín inn um bréfalúguna á heimili aðstoðarmanns Sigmundar, Jóhannesar Þór Skúlasonar, og innihélt hótun um að birtar yrðu opinberlega upplýsingar um afskipti Sigmundar Davíðs af fjárhagsmálefnum Vefpressunar ehf., fjölmiðlasamsteypu undir stjórn Björns Inga Hrafnssonar, fyrrverandi unnusta Hlínar. Til að komast hjá því yrði Sigmundur Davíð að greiða 7,5 milljónir króna og afhenda þær þriðjudaginn 25. maí í fyrra. Ekki kom hins vegar fram í þessu bréfi hvar afhenda ættið féð, og bréfið var ekki opnað fyrr en 1. júní, eftir að systurnar höfðu verið handteknar.
Í millitíðinni hafði Hlín póstlagt annað bréf til Sigmundar Davíðs, en stílað á eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur. Í seinna bréfinu var búið að hækka fjárhæðina í átta milljónir króna og með því fylgdu „fyrirmæli um afhendingarmáta, gps-hnit og ljósmyndir af afhendingarstaðnum, sem var við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði,“ að því er segir í ákærunni á hendur systrunum. Bréfið barst á heimili þáverandi forsætisráðherra þann 28. maí í fyrra, og degi síðar voru systurnar handteknar við Krýsuvíkurveg, eftir að þær höfðu sótt pakkningu í tösku sem þær töldu innihalda umkrafða greiðslu.
Fram kemur í ákærunni að Hlín hafi ritað bréfin en Malín prentað þau út. Systurnar eru báðar ákærðar fyrir tilraun til að fjárkúga Sigmund Davíð, og einnig fyrir fjárkúgun á hendur Helga Jean Claessen, sem greiddi þeim systrum 700 þúsund krónur til að koma í veg fyrir að Hlín legði fram kæru um nauðgun. Malín tók við þeim peningum í tvennu lagi og eru systurnar sagðar hafa skipt fénu á milli sín.
Helgi gerir einkaréttarkröfu og krefst skaðabóta að upphæð 1,7 milljónum króna frá systrunum. Engin slík krafa var sett fram frá öðrum sem málið varða.