Óttast er að um 240 flóttamenn hafi drukknað í tveimur sjóslysum undan strönd Líbíu. Slysin urðu þegar tveimur yfirfullum bátum hvolfdi á leið sinni til Evrópu. Öðrum bátnum hvoldi um 20 mílum frá Líbíu en hinum undan strönd ítölsku eyjunnar Lampedusa um sólarhring fyrr. Tveimur konum var bjargað úr sjónum og upplýstu þær björgunarsveitir ítölsku landhelgisgæslunnar um það sem hafði gerst.
Carlotta Sami, talskona Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir í viðtali við New York Times, að um 30 eftirlifendum úr slysinu við Lampedusa hafi verið bjargað. Þar af voru sex börn og 20 konur, sumar barnshafandi. Um 29 flóttamönnum var bjargað vegna bátsins sem hvolfdi undan strönd Líbíu og fundust tólf lík á staðnum, að sögn Sami.
Nú er talið að 4.220 hafi drukknað á þessari leið það sem af er ári, og ekkert lát virðist á straumi flóttamanna yfir hafið í leit að betra lífi. Flestir flóttamanna koma frá Sýrlandi, Írak, Líbíu og Afganistan.