Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það verði að skýrast í þessari viku hvort samtöl hans við formenn annarra flokka séu grundvöllur fyrir því að hefja stjórnarmyndunarviðræður. Þetta kemur fram í viðtali við hann á Vísi.
„Það væri best að hafa bara þrjá flokka í þessari stöðu,“ sagði Bjarni við RÚV, þótt hann útilokaði ekki að fjórði flokkurinn kæmi að borðinu. Hann sagði málin ekki eingöngu undir honum komin, en samtöl hans við formenn annarra flokka hafi gengið ágætlega. Hann fundaði með Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, í gærkvöldi. Hann ætlar að heyra í fólki í dag, en segir ekki hverjum eða hvenær.
Spurður að því hvort hann væri bjartsýnn á að það dragi til tíðinda í þessari viku sagði hann: „ég ætla að leyfa mér að vera það.“ Hann sagðist gera ráð fyrir því að geta upplýst forseta Íslands um stöðu mála í þessari viku og tíðinda verði alveg ábyggilega að vænta í þessari viku.
Hann sagði einn möguleika á meirihluta vera með Viðreisn og Bjartri framtíð, en fyrir liggi að sá meirihluti væri veikur. „En það eru fleiri möguleikar í stöðunni. En þetta ræðst eins og skiljanlegt er af málefnunum.“
Hann sagði jafnframt að það væri eðlilegt að tala við Vinstri græn líka, en ljóst hafi verið að þar væri mesta bilið að brúa. Það yrði engu að síður ríkisstjórn sem brúaði meiri pólitíska breidd.