Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur staðfest að skosk stjórnvöld ætla að reyna að taka þátt í dómsmálinu gegn breskum stjórnvöldum um Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Dómstóll í London komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að stjórnvöld gætu ekki hafið útgönguferlið, sem kennt er við 50. grein Lissabon-sáttmála ESB, án þess að bera það undir þingið fyrst. Þessu hafa bresk stjórnvöld áfrýjað, og var greint frá því í dag að málið verði rekið fyrir Hæstarétti í byrjun desember.
Sturgeon staðfesti í dag að formlega yrði óskað eftir því að skosk stjórnvöld yrðu aðili að málinu. Skotar kusu gegn útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, og þingmenn Skoska þjóðarflokksins, sem vann stórsigur í síðustu þingkosningum, hafa sagt að þeir myndu líklega ekki kjósa með útgöngu úr ESB ef til atkvæðagreiðslu kemur í þinginu. „Virkjun 50. greinarinnar mun svipta skosku þjóðina og skosk fyrirtæki réttindum og frelsi sem þau búa nú við. Það getur einfaldlega ekki staðist að bresk stjórnvöld geti tekið þessi réttindi af fólki þegar forsætisráðherrann segir það, án þess að það sé rætt í þinginu,“ sagði Sturgeon meðal annars í dag. Það ætti að þurfa að setja lög um málið á þinginu, og að auki eigi að fá samþykki skoska þjóðþingsins fyrir virkjun 50. greinarinnar.
„Ég viðurkenni og virði réttindi Englands og Wales til þess að yfirgefa Evrópusambandið. En það er ekki hægt að ýta til hliðar lýðræðislegum vilja skosku þjóðarinnar og skoska þjóðþingsins eins og hann skipti ekki máli.“ Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu hafi í raun verið miklu skýrari og meira afgerandi í Skotlandi en annars staðar, 24 prósentustiga munur var á þeim sem vilja vera áfram innan ESB og þeirra sem vilja yfirgefa sambandið. „Svo að forsætisráðherrann verður að standa við loforð sitt um að koma fram við Skotland sem jafningja innan Bretlands og hlusta á vilja skosku þjóðarinnar.“