Donald J. Trump hefur verið kjörinn nýr forseti Bandaríkjanna. Hillary Clinton hefur sett sig í samband við hann og lýst því yfir að baráttunni um forsetastólinn væri lokið. Trump hefði sigrað. Trump ávarpaði stuðningsmenn sína rétt í þessu. Þar sagði hann: „Mér hefur rétt í þessu borist símtal frá Clinton. Hún óskaði okkur til hamingju með sigurinn og ég óskaði henni og fjölskyldu hennar með mjög harða baráttu.“
Nú sé tími fyrir Bandaríkjamenn að sameinast og láta sárin gróa. Trump sagðist heita því gagnvart hverjum einasta Bandaríkjamanni að hann myndi verða forseti þeirra allra. Þeir sem hefðu ekki stutt hann, og það hafi verið fjölmargir, mættu eiga von á því að Trump myndi teygja sig til þeirra til að óska eftir leiðsögn um hvernig mætti sameina þjóðina. „Hinir gleymdu íbúar Bandaríkjanna, verða ekki gleymdir lengur.“
Trump sagðist ætla að byggja upp innviði þjóðarinnar og með því skapa milljónir starfa. Hann sagðist ætla að eiga í frábærum samskiptum við öll önnur lönd sem væru tilbúin að eiga í frábærum samskiptum við Bandaríkin.
Niðurstaðan er þvert á allar spár, sem gerðu ráð fyrir sigri Clinton. Fljótlega varð þó ljóst, þegar talning atkvæða hófst, að Trump væri að fara að sigra í lykilríkjum sem fáir höfðu átt von á að hann myndi sigra í.
Viðbrögð fjármálamarkaða við góðu gengi Donalds Trump í forsetakosningunum í Bandaríkjunum voru á þá að hlutabréf hafa fallið í verði og gull hefur rokið upp, samkvæmt fréttum Bloomberg. Þetta eru mestu sveiflur sem sést hafa á mörkuðum síðan Brexit-kosningin fór fram í Bretlandi með þeim niðurstöðum, og breskur almenningur kaus með útgöngu úr Evrópusambandinu.