Helstu leiðtogar alþjóðastofnana og bandalagsþjóða Bandaríkjanna hafa sent Donald Trump hamingjuóskir eftir að ljóst var að Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna. Repúblikanflokkurinn hlaut einnig meirihluta í báðum þingdeildum bandaríska þingsins.
Nær allir þjóðarleiðtogar lögðu áherslu áframhaldandi samstarf á alþjóðavísu en Trump lagði meðal annars áherlsu á í kosnignabaráttu sinni að hann myndi rifta viðskiptasamningum á alþjóðavísu.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sendi Trump heillaóskir frá Brussel í morgun og segist hlakka til að vinna með nýkjörnum forseta. „Við stöndum frammi fyrir ögrandi nýju heimsöryggisástandi,“ sagði Stoltenberg og taldi til ofbeldi 21. aldarinnar; ný form hernaðar, netárásir og hryðjuverkaógn.
Trump lagði mikla áherslu á í kosningabaráttu sinni að aðildarríki NATO myndu, í hans valdatíð, leggja til þær fjárhæðir sem þær hafa skuldbundið sig til að greiða til NATO. Ísland er meðal aðildarríkja NATO og er þar minnsta aðildarríkið og eina ríkið sem hefur ekki her. Ísland er meðal þeirra landa sem hefur ekki greitt að fullu þær fjárhæðir sem samningurinn utan um Atlantshafsbandalagið gerir kröfu um.
Ljóst er að Stoltenberg leggur áherslu á að nýr leiðtogi Bandaríkjanna fóstri NATO í stað þess að slíta það í sundur. „Bandalagið okkar hefur stefnt saman helstu vinaþjóðum Bandaríkjanna á tímum friðar og ófriðar í nærri 70 ár. Sterkt Atlantshafsbandalag er gott fyrir Bandaríkin og gott fyrir Evrópu,“ skrifar hann.
Leiðtogar öfgahægrisins í Frakklandi voru meðal þeirra sem voru fyrstir til að óska Trump til hamingju. Marie Le Pen, leiðtogi Front National, var ánægð með úrslitin og óskaði „frjálsri amerískri þjóð“ til hamingju á Twitter. Helsti ráðgjafi Le Pen, Florian Philippot, tvítaði: „Þeirra veröld er að hrynja, okkar veröld er að verða til.“
Leiðtogar Bretlands og Bandaríkjanna stæra sig oft af „sérstöku sambandi“ þjóðanna enda hafa þessi ríki verið afar traustir bandamenn á alþjóðasviðinu síðan í seinni heimstyrjöldinni. Þar ráða ekki síst efnahagslegir hagsmunir ferðinni. Kosningabarátta Brexit-liða gekk til dæmis ekki síst um að Bretland myndi líta enn frekar vestur yfir Atlantshafið frekar en austur yfir Ermasundið í efnahagslegum skilningi.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sendi Donald Trump hamingjuóskir í morgun og fagnaði hinu „sérstaka sambandi“ Bretlands og Bandaríkjanna; sameiginlegum gildum um „frelsi, lýðræði og einkaframtak“. May hafði áður gagnrýnt kosningabaráttu Donalds Trump.
Margir leiðtogar Íhaldsflokksins – flokks Theresu May – hafa hins vegar lýst yfir áhyggjum sínum af utanríkisstefnu Trump. Breska blaðið The Independent greinir frá því að einhverjir hafi kallað utanríkisstefnu nýrra stjórnvalda „skelfilega yfirborðskennda“. Einn ráðherra í ríkisstjórn May lét hafa eftir sér: „Spurningin er hvort hann hafi nokkra hugmynd um ástandið í Mið-Austurlöndum. Mun hann taka afstöðu til útþenslu ísraelskra landnemabyggða, svo dæmi sé tekið. Hann veit eflaust ekkert um það.“
Nigel Farage, helsti talsmaður Brexit og leiðtogi UKIP-flokksins í Bretlandi, kallar kjör Donalds Trump byltingu í Bandaríkjunum á sama hátt og Brexit-atkvæðagreiðslan var bylting í Evrópusambandinu. Farage er sagður vera á leið til Bandaríkjanna til fundar við Trump.
Frá Rússlandi barst skeyti frá Vladimir Pútín til kosningavígis Donalds Trump. Pútín óskar nýjum forseta velgengni í nýju starfi og lagði áherslu á að endurreisn sambands Rússlands og Bandaríkjanna væri mikilvægt, ekki aðeins fyrir þessi tvö lönd heldur heiminn allan. Hann sagðist vona að kjör Trump myndi leiða til uppbyggilegrar samræðu milli Moskvu og Washington sem byggi á jafnræði og virðingu.
Leiðtogar Evrópusambandsins hafa boðið Trump til fundar við sig. Donald Tusk, forseti Evrópuþingsins, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, vilja funda með honum um málefni Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. „Í dag er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að styrkja tengslin yfir Atlantshafið,“ skrifa þeir í bréfi til Trump.