Bandaríkjamenn kusu um fleiri hluti en næsta forseta landsins í kosningunum í gær. Á kjörseðlinum gátu Bandaríkjamenn kosið fólk í hin ýmsu embætti: þingsæti, ríkisstjóra, dómara og saksóknara. Kjörseðillinn var mjög mismunandi eftir ríkjum. Sum staðar mátti einnig kjósa um einstaka málefni. Í nokkrum ríkjum völdu kjósendur að leyfa neyslu marijúana.
Kannabis hefur verið lögleitt í Kaliforníu, Massachusetts, Nevada, Florida, Akransas, Arizona og Norður-Dakóta eftir kosningarnar í gær. Þetta er mikill sigur fyrir þá sem hafa barist fyrir lögleiðingu kannabis og bætast þessi ríki í hóp nokkurra annarra sem þegar hafa lögleitt neyslu kannabis.
Í flestum tilvikum er hins vegar ekki um að ræða algert frelsi með sölu og neyslu kannabis. Í flestum ríkjum sem leyfa neyslu þess eru settar takmarkanir.
Í Kaliforníu er gert ráð fyrir því að markaður með kannabis verði stærri en kannabismarkaður ríkjanna Colorado, Washington, Oregon og Alaska samanlagt eftir lögleiðinguna. Kalifornía er eitt og sér fimmta stærsta hagkerfi heims og er talið að þessar reglubreytingar muni hafa alþjóðleg áhrif á kannabismarkað.
Colorado og Washington voru fyrstu ríkin í Bandaríkjunum til að lögleiða kannabisneyslu en síðan hefur markaður með kannabis verið sá sem vaxið hefur hvað hraðast í Bandaríkjunum.
Jafnvel þó einstaka ríki í Bandaríkjunum hafi breytt um stefnu hvað þetta mál varðar er kannabis enn bannað eiturlyf í alríkislögum í Bandaríkjunum.