Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, viðraði hugmynd um að skipað yrði í þingnefndir til bráðabirgða til þess að hægt væri að hefja umræður og efnislega meðferð fjárlaga í Alþingi. Hún var gestur Vikulokanna á Rás 1 í dag ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýkjörins þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Pawel Bartoszek, nýkjörins þingmanns Viðreisnar.
Fjárlagafrumvarpið bíður meðferðar úr ráðuneytinu og þarf þingið að ganga fjárlögum áður en þingi er slitið fyrir jól. Nú þegar ekki hefur verið mynduð ríkisstjórn er það orðið álitamál hvort sá tími sem verður til stefnu, þegar þing verður kallað saman eftir ríkisstjórnarmyndun, dugi til þess að afgreiða fjárlagafrumvarpið með sóma.
Ekki er augljóst að viðræður þeirra flokka sem nú ræða hugsanlegt meirihlutasamstarf muni skila árangri. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það muni eflaust skýrast strax eftir helgi hvort þetta samstarf verði að veruleika. Annars hafa flokkarnir þrír (Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð) gefið sér um það bil viku til viðræðnanna.
Þau Áslaug Arna og Pawel sögðu, þegar sú spurningin um hugsanlegt „bráðabirgðaþing“ var borin undir þau, að það væri ekki tímabært að velta slíku fyrir sér strax. Heldur ætti þingheimur að fylgjast með gangi formlegra stjórnarmyndunarviðræðna. Ef þær viðræður dragist á langinn eða ef útlit er fyrir að Bjarna takist ekki að nýta stjórnarmyndunarumboð sitt þá mætti fara að huga að bráðabirgðalausnum.