Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist vænta þess að það muni skýrast strax eftir helgi hvort það muni ganga að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar. Ekki ríkir mikil bjartsýni um að þessir flokkar muni ná saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Morgunblaðið segir frá því í dag að nú verði skipaðir starfshópar innan þessara þriggja flokka til þess að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður og setja saman drög að stjórnarsáttmála. Formenn þessara flokka hittust síðdegis í gær og ákváðu að láta á það reyna með formlegum stjórnarmyndunarviðræðum hvort hægt væri að mynda ríkisstjórn þessara flokka, áður en Bjarni myndi skila stjórnarmyndunarumboðinu aftur til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.
Fram hefur komið að helsti ásteytingarsteinn í viðræðum þessara flokka mun vera málefni aðildarviðræðna við Evrópusambandið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Viðreisn og Björt framtíð hafa farið fram á. Málamiðlun í þeim efnum verður hugsanlega að Alþingi fái málið til meðferðar en í Morgunblaðinu í dag segir að Sjálfstæðismenn vilji heldur að málið verði þingsins frekar er ríkisstjórnarinnar. Málið yrði þá tekið fyrir í lok kjörtímabilsins.
Bjarni Benediktsson lét hafa eftir sér í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að það myndi skýrast strax eftir helgi hvort formlegar viðræður myndu skila árangri. Ekki eru allir innan Bjartar framtíðar eða Viðreisnar á eitt sáttir með að hefja formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Fréttablaðið hefur eftir Óttarri Proppé að ástæða þess að Björt framtíð gangi til slíkra viðræðna sé að „við eygjum von á því að einhver möguleiki [sé] að ræða málin og ná góðum umbótum.“ Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tekur í sama streng og segist vona að þetta muni ganga sem allra best.
Ef formlegar viðræður þessara flokka fara út um þúfur er talið næsta víst að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái næst formlegt tækifæri til þess að spreyta sig á að mynda ríkisstjórn. Katrín hefur staðið fast á því að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn greini á um of veigamikla hluti til þess að geta starfað saman í ríkisstjórn. Þess vegna hefur því verið spáð að Katrín myndi reyna að mynda ríkisstjórn yfir miðjuna og til vinstri, sé hinn klassíski pólitíski kvarði notaður.