Stjórn Lindarhvols, eignarhaldsfélags utan um stöðugleikaeignir ríkisins, segir að sala á hlut félagsins í Klakka ehf., áður Exista, hafi að öllu leyti verið í samræmi við reglur um starfsemi félagsins og að gagnsæi hafi að fullu verið tryggt í söluferlinu. Hluturinn var seldur til erlends vogunarsjóðs á 505 milljónir króna. Stjórnin gerir margháttaðar athugasemdir við fréttaflutning af sölunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Lindarhvols.
Mikið hefur verið fjallað um söluferlið á hlut Lindarhvols í Klakka í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu undanfarna daga. Í Fréttablaðinu í dag var sagt frá því að aðrir bjóðendur gruni að trúnaðargögnum hafi verið lekið til þeirra sem stýra vogunarsjóðnum Burlington Loan Management, sem keypti hlutinn í Klakka af ríkinu. Sömu aðilar telja að Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka, hafi gert tilboð í hlutinn fyrir hönd BLM ehf., íslensks félags Burlington Loan Management, sem var fyrir stærsti eigandi Klakka. Í blaðinu var einnig rætt við Sigurð Valtýsson, framkvæmdastjóra félags í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona sem átti þriðja hæsta tilboðið í hlutinn, þar sem hann sagði stjórnarhætti Lindarhvols fyrir neðan allar hellur. Tilboð bræðranna, sem Kvika setti fram fyrir þá, var upp á 501 milljónir króna. Þeir voru aðalleigendur Klakka/Exista á árum áður og Sigurður var þá annar forstjóra fyrirtækisins. Í dag er helsta eign Klakka 100 prósent hlutur í fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu.
Ríkið seldi vogunarsjóði
Stjórn Lindarhvols, eignarhaldsfélags í eigu íslenska ríkisins, samþykkti í lok október að selja 17,7 prósent hlut ríkisins í Klakka, sem hét áður Exista, til vogunarsjóðsins Burlington Loan Management. Eftir viðskiptin á Burlington um 75 prósent hlut í Klakka, en helsta eign félagsins í dag er fjármögnunarfyrirtækið Lýsing. Burlington, sem var einn umsvifamesti kröfuhafi föllnu bankanna og keypti gríðarlegt magn af kröfum á þá á eftirmarkaði fyrir lágar fjárhæðir, greiddi líkt og áður sagði 505 milljónir króna fyrir hlut ríkisins í Klakka.
Lindarhvoll, sem tók við stöðugleikaframlagseignum ríkisins, auglýsti til sölu eignir í umsýslu félagsins í lok september. Það vakti athygli, enda mánuður í kosningar þegar eignirnar voru auglýstar til sölu.
Burlington gerði öðrum hluthöfum Klakka yfirtökutilboð. Smærri hluthafar, sem áttu hlut sem er verðmetinn á undir 2.000 evrur, myndu skulda bandaríska fyrirtækinu Wilmington Trust fé ef þeir myndu ganga að yfirtökutilboði Burlington Loan Management í hluti þeirra. Ástæðan er sú að Wilmington Trust, sem sér um umsýslu á kröfum og hlutabréfum fyrir Klakka, rukkar 2000 evrur, um 248 þúsund krónur, í umsýslugjald fyrir að sjá um framsal á eignarhlutunum.
Yfirlýsing stjórnar Lindarhvols í heild sinni:
Vegna umfjöllunar um sölu á hlut og tengdum kröfum ríkissjóðs í Klakka ehf. í fjölmiðlum, telur stjórn Lindarhvols ehf. nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri til leiðréttingar á rangfærslum og misskilningi í þeim fréttaflutningi.
Lindarhvoll ehf. var stofnað til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á svokölluðum stöðugleikaeignum á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða III í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands (nánari upplýsingar er að finna hér: http://lindarhvolleignir.is/um-okkur/). Félagið fylgir við starfrækslu sína þeim fyrirmælum sem sett voru í ofangreindu ákvæði til bráðabirgða og í samningi fjármála- og efnahagsráðherra. Reglur um starfsemi og starfshætti félagins voru settar á grundvelli þeirra fyrirmæla. Á heimasíðu félagsins má nálgast öll þessi gögn. Miklu skiptir að við störf félagsins sé tryggt að viðhöfð séu vönduð og fagleg vinnubrögð og að allt ferli við sölu og ráðstöfun á þeim stöðugleikaeignum sem hér um ræðir sé skýrt og ljóst.
Frá því Lindarhvoll ehf. hóf starfsemi í apríl s.l. hefur sala eigna og greiðsluflæði af stöðugleikaeignum numið alls 34,7 milljörðum króna. Sú aðferðafræði sem beitt hefur verið við sölu þessara eigna hefur verið í fullu samræmi við þær verklagsreglur sem félaginu er gert að starfa eftir.
Sala á hlut og tengdum kröfum í Klakka ehf.
Hvað varðar sölu í Klakka ehf. telur stjórn Lindarhvols ehf. að söluferlið hafi fullnægt og farið að öllu leyti fram eftir ofangreindum reglum. Gagnsæi hafi verið tryggt með því að söluferlið var skýrt og ljóst og jafnræðis bjóðenda hafi að fullu verið gætt:
- Söluferlið var öllum opið, það var auglýst opinberlega og tilkynning birt á heimasíðu félagsins 29. september síðastliðinn.
- Öllum áhugasömum fjárfestum var boðið að senda inn skuldbindandi tilboð á því formi og með þeim fyrirvörum sem hentaði hverjum og einum fjárfesti.
- Söluferlið var eins opið, einfalt og skýrt og mögulegt er í slíku ferli. Það var ekki háð öðrum skilyrðum en þeim að áhugasamir bjóðendur skiluðu inn tilboðum sínum með rafrænum hætti fyrir kl. 16.00, föstudaginn 14. október 2016.
- Þetta er venjubundið fyrirkomulag í sambærilegum söluferlum en fyrirkomulagið einfaldar tilboðsgerð, auðveldar erlendum sem innlendum aðilum að leggja fram tilboð. Ekki síst er með þeim hætti tryggt að það liggi fyrir rafræn staðfesting þess efnis að tilboð hafi borist fyrir lok tilboðsfrests.
- Engar athugasemdir bárust varðandi þetta fyrirkomulag fyrir lok tilboðsfrests.
Þrjú tilboð bárust rafrænt fyrir lok tilboðsfrestsins, frá þremur tilboðsgjöfum, á síðustu sex mínútum áður en tilboðsfrestur rann út, sem hér segir:
- Hæsta tilboðið var að fjárhæð kr. 505.000.161.
- Næst hæsta tilboðið var að fjárhæð kr. 502.000.000.
- Þriðja hæsta tilboðið var að fjárhæð kr. 500.950.431.
Þar sem aðili, sem kveðst hafa gert tilboð í fyrrnefnda hluti og tengdar kröfur í Klakka ehf., hefur komið fram í fjölmiðlum er rétt að upplýsa um að nafn hans eða félags í hans eigu eða umsjón var hvorki tilboðsgjafi né kom fram með neinum hætti í þeim tilboðum sem skilað var fyrir lok tilboðsfrests.
Í samræmi við reglur félagsins um sölu eigna fór stjórn Lindarhvols ehf. yfir hvert og eitt tilboð sem barst innan tilboðsfrests. Stjórn lagði mat á framlögð tilboð á grundvelli þeirra fyrirmæla sem reglur félagsins gera ráð fyrir við slíkt mat. Að matinu loknu tók stjórn Lindarhvols ehf. þá ákvörðun að taka hæsta tilboðinu, sem var frá BLM fjárfestingum ehf. Með sölunni var því að öllu leyti fullnægt því meginmarkmiði við sölu eigna á grundvelli ofangreindra fyrirmæla að leggja eigi áherslu á hagkvæmni með því að leitað skuli hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar í opnu söluferli.
Strax og afstaða stjórnar Lindarhvols ehf. lá fyrir var þeim aðilum, sem skiluðu inn skuldbindandi tilboðum innan tilboðsfrests, tilkynnt um hvort tilboði viðkomandi yrði tekið eða ekki. Lögð er áhersla á að tilkynna eins fljótt og mögulegt er um niðurstöðu söluferla á heimasíðu félagsins. Tímasetning tilkynningar ræðst af eðli þess söluferlis sem um ræðir. Ræðst það m.a. af hagsmunum félagsins af því að tryggja að endanlegur skuldbindandi samningur liggi fyrir. Niðurstaða söluferlisins var birt með tilkynningu á heimasíðu Lindarhvols þann 11. nóvember sl.
Meðal stöðugleikaeigna sem framseldar voru ríkissjóði voru eignarhlutir í félögum af ýmsum toga. Stjórn Lindarhvols ehf. telur nauðsynlegt að benda á að umsýsla með slíkum eignum felst meðal annars í því að tilnefna fulltrúa til stjórnarsetu. Það er mat stjórnar Lindarhvols ehf. að um fyllilega samræmanleg hlutverk sé að ræða að sitja í stjórnum fyrir hönd ríkissjóðs og veita jafnframt ráðgjöf um sölu þeirrar eignar. Í báðum tilvikum er viðkomandi að gæta hagsmuna ríkissjóðs og engra annarra.
Stjórn Lindarhvols ehf. tekur allar ákvarðanir varðandi umsýslu, ráðstöfun og sölu einstakra eigna í umsýslu félagsins. Lindarhvoll ehf. hefur ráðið sérfræðinga til að annast ráðgjafastörf og framkvæmd söluferla en aðkoma ráðgjafa við söluferli á eignum í umsýslu félagsins snýr einungis að þeim þáttum að halda utan um söluferlið á hverjum tíma
Stjórn félagsins vill ítreka að við söluferlið var hagsmuna ríkissjóðs gætt í hvívetna, tryggður var fullur trúnaður við söluferlið og farið var eftir reglum Lindarhvols ehf. að öllu leyti.
Stjórn Lindarhvols ehf.
Þórhallur Arason, stjórnarformaður
Ása Ólafsdóttir, meðstjórnandi
Haukur C. Benediktsson, meðstjórnandi