Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segist hafa slitið stjórnarmyndunarviðræðunum við Viðreisn og Bjarta framtíð þó að fundir flokkanna að undanförnu hafi leitt í ljós góðan samhljóm um ýmis mál.
„Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið. Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið. Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum,” er haft eftir Bjarna í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Ekkert fæst uppgefið um það hvort Bjarni ætli nú að skila stjórnarmyndunarumboðinu eða ekki. Það er ekki skýrt af ummælum hans í fréttatilkynningunni, og ekki næst í aðstoðarmann hans, Svanhildi Hólm Valsdóttur. Forsetaembættið vill ekkert gefa upp um það hvort Bjarni hafi boðað komu sína til Bessastaða eða ekki.