Boðað hefur verið til fundar á Bessastöðum klukkan 17 í dag. Þar munu Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins funda.
Bjarni sleit stjórnarmyndunarviðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn í dag eftir nokkurra daga fundahöld. Hann sagðist hafa gert það þrátt fyrir að fundir flokkanna hafi leitt í ljós góðan samhljóm um ýmis mál. Lengra hafi verið á milli í öðrum málum. „Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið. Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið. Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum,” er haft eftir Bjarna í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Það kemur í ljós á fundi þeirra hvort Bjarni hyggst skila stjórnarmyndunarumboðinu. Ef hann gerir það er talið líklegt að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái næst tækifæri til að mynda ríkisstjórn.