Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur boðað formenn stjórnmálaflokkanna á sinn fund á morgun, og mun hún fyrst eiga fund með Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, og hans fólki.
Þá koma fundir með formönnum Bjartrar framtíðar og Viðreisn, sem eru samstíga í stjórnarviðræðunum, Framsóknarflokks, Pírata og síðast Sjálfstæðisflokks.
Katrín fékk stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, eftir að viðræður Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, sigldu í strand.
Hún sagði alveg ljóst hvaða leið hún hafi talað fyrir, það væri fjölflokkastjórn. Hún játti því að hún væri þá að ræða um fimm flokka stjórn, stjórn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Staðan væri auðvitað flókin, en hún nálgaðist auðvitað verkefnið með bjartsýni.
Katrín sagði eftir að hún fékk umboðið, að það væri ábyrgðarhluti að reyna að koma saman starfhæfri ríkisstjórn í landinu, og allir flokkar gerðu sér grein fyrir því. Hún tæki því af auðmýkt. Katrín sagðist aðspurð ekki ætla að segja neitt fyrirfram eða útiloka.
Fundirnir á morgun, sem Katrín hefur boðað til, fara fram í Alþingishúsinu.
Fundartímarnir eru þeir sem að neðan greinir, samkvæmt tilkynningu frá Katrínu.
09.30 Samfylkingin
11.30 Björt framtíð og Viðreisn
14.00 Framsóknarflokkur
15.30 Píratar
17.00 Sjálfstæðisflokkur