Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, er komin með stjórnarmyndunarumboðið. Þetta tilkynnti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fyrir skömmu, að loknum fundi þeirra tveggja.
Guðni sagðist hafa talað við Katrínu í gær, eftir að hann hafði fundað með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Þar tilkynnti Bjarni Guðna að formlegar viðræður hans við Bjarta framtíð og Viðreisn hefðu strandað. „Í framhaldi af þeim fundi ræddi ég við Katrínu Jakobsdóttur og fór þess á leit við hana að hún myndi leiða viðræður um stjórnarmyndun, taka við stjórnarmyndunarumboði. Hún varð við því.“
Guðni ræddi við leiðtoga annarra flokka þegar hann hafði talað við Katrínu og greindi þeim frá þessu.
„Við ræddum um það að þótt ekki mætti rasa um ráð fram þá þyrfti að hafa hraðar hendur,“ sagði Guðni um tímarammann sem Katín fengi til myndunar stjórnar. Þau ætli að hittast aftur um helgina eða í síðasta lagi á mánudag.
Guðni sagði algjörlega ótímabært að ræða um möguleikann á utanþingsstjórn, þrátt fyrir að staðan sé flókin. Hann sagði stöðuna þannig að Alþingi yrði að koma saman fljótlega, jafnvel áður en ríkisstjórn verði mynduð.
Þess er nú beðið að Katín Jakobsdóttir ræði við fjölmiðla á Bessastöðum.