Breski sjálfstæðisflokkurinn UKIP verður að öllum líkindum beðinn um að endurgreiða Evrópusambandinu 173 þúsund evrur, sem samsvarar tæplega 21 milljón króna, sem flokkurinn fékk í styrki frá sambandinu. Til viðbótar við það mun flokkurinn ekki fá ríflega 500 þúsund evra styrk sem hann átti von á. Ástæðan er sú að flokkurinn er sakaður um að hafa misnotað almannafé. Guardian greinir frá þessu.
Bandalag um beint lýðræði í Evrópu (e. Alliance for Direct Democracy in Europe) er bandalag undir stjórn UKIP og það fékk þessa fjármuni í styrki. Evrópuþingmenn frá Þýskalandi og Frakklandi tilheyra líka bandalaginu. Ný skýrsla frá endurskoðun Evrópuþingsins leiðir í ljós að UKIP hafi varið fjármunum frá Evrópusambandinu í skoðanakannanir og greiningar á kjördæmum í Bretlandi þar sem flokkurinn vonaðist til að fá sæti í þingkosningunum þar í landi. Meðal kjördæmanna var Thanet South, kjördæmið þar sem formaðurinn Nigel Farage reyndi að ná þingsæti.
Féð var einnig notað til að gera skoðanakannanir á viðhorfi almennings til þess að yfirgefa Evrópusambandið, mánuðum áður en kosningabaráttan í Brexit hófst.
„Þetta var ekki í þágu Evrópuflokksins, sem má hvorki taka þátt í landskosningum né þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í skýrslunni. Kjördæmin sem skoðanakannanir hafi verið gerðar í sýni að kannanirnar voru í þágu UKIP í þingkosningunum í Bretlandi. Kjördæmin hafi mörg verið talin nauðsynleg fyrir góða niðurstöðu flokksins í kosningum og fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Breski sjálfstæðisflokkurinn neitar því að hafa misnotað féð og segist hafa farið eftir reglum. Bandalagið um beint lýðræði mun að öllum líkindum verða gjaldþrota án styrkjanna sem nú á að taka af því. Það bætir á fjárhagsvandræði UKIP, sem eru talsverð. Það mun líka koma niður á öðrum flokkum sem eiga aðild að bandalaginu.
Á mánudaginn fer skýrslan fyrir leiðtoga á Evrópuþinginu. Ef þeir samþykkja hana fær bandalagið mánuð til að gera áætlun um bætta fjárhagsstjórn.