Smásölurisinn Hagar, sem rekur Bónus og Hagkaup, hefur keypt lyfsölufyrirtækið Lyfju fyrir 6,7 milljarða króna af ríkinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Virðingu, sem sá um söluferlið fyrir hönd íslenska ríkisins og félags þess, Lindarhvols.
Skrifað hefur verið undir samning um kaup Haga hf. á öllu hlutafé í Lyfju hf. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Reiknað er með að niðurstaða áreiðanleikakönnunar liggi fyrir seinni part desembermánaðar og að endanleg niðurstaða Samkeppniseftirlitsins verði birt ekki síðar en um mitt ár 2017. Þar til niðurstaða Samkeppniseftirlitsins fæst verður rekstur Lyfju hf. og dótturfélaga með óbreyttu sniði. „Lyfja er stærsta keðja apóteka og heilsuverslana á Íslandi en samtals rekur félagið 39 apótek, útibú og verslanir, auk minni útibúa, sem staðsett eru um land allt undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins. Einnig á Lyfja dótturfélögin Heilsu ehf. og Mengi ehf. Formlegt söluferli Lyfju hf. hófst 8. september sl. og í framhaldi fengu mögulegir tilboðsgjafar fjárfestakynningu og aðgang að ítarlegum upplýsingum. Fjögur skuldbindandi tilboð bárust svo í fyrirtækið áður en frestur til að leggja slík tilboð fram rann út 7. nóvember sl. Hagar hf. áttu hæsta tilboðið sem hljóðaði upp á 6,7 ma.kr. heildarvirði og var því tekið,“ segir í tilkynningunni.