Landsbankinn lét vinna verðmat á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun í september 2014, nokkrum mánuðum eftir að bankastjóri hans lagði til að hluturinn yrði seldur til Íslandsbanka á ákveðnu verði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem áfram er greint frá drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar um eignasölu Landsbankans.
Þar segir að í apríl 2014 hafi fjárfestingahópur boðið í hlutinn. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sendi í kjölfarið tölvupóst á annan stjórnanda innan bankans þar sem hann lagði til að Íslandsbanki, sem átti líka hlut í Borgun, yrði boðinn hluturinn til sölu á sama verði og fjárfestahópurinn bauð í hlutinn. Hann lagði þó áherslu á að bankaráð yrði að samþykkja tillöguna.
Í skýrsludrögunum segir Ríkisendurskoðun að ekki sé hægt að sjá annað en að Landsbankinn hafi verið búinn að ákveða um miðjan apríl 2014 að selja eignarhlut sinn í Borgun. Umhugsunarvert sé hvað valdi því að Landsbankinn hafi látið vinna verðmat á hlutnum í september, mörgum mánuðum eftir að hann lýsti sig reiðubúinn til að selja hlutinn á tilteknu verði. Eðlilegra hefði verið að verðmeta hlutinn áður en tillaga var lögð fram um að selja hann til Íslandsbanka í apríl 2014.
Gleymdi að spyrja
Eins og Kjarninn hefur ítrekað fjallað um var 31,2 prósenta hlutur í Borgun seldur bak við luktar dyr til valinna fjárfesta, meðal annars stjórnenda Borgunar, undir lok ársins 2014. Hluturinn var seldur á 2,2 milljarða króna og heildarvirði félagsins var metið á um sjö milljarða. Í febrúar var virði fyrirtækisins talið allt að 26 milljarðar króna. Eftir á hefur komið í ljós að Borgun ætti rétt til greiðslna vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa Europe, sem síðar gerðist. Landsbankinn hefur sagt að hann hafi ekki verið upplýstur um þennan valrétt. Því hefur Borgun hins vegar vísað á bug.
Borgun fékk greitt fyrir hlut sinn í Visa Europe í sumar. Greiðslan barst í formi reiðufjár og var hærri en þeir 4,6 milljarðar króna sem upphaflega var búist við að fá. Ástæðan er sú að fallið var frá afkomutengdri greiðslu.
Morgunblaðið greindi frá því gær að á fundum sem bankastjóri Landsbankans átti með Ríkisendurskoðun í ágúst og september féllst bankastjórinn á að líkast til hefði bankinn gleymt að spyrja forsvarsmenn greiðslukortafyrirtækisins Borgunar út í aðild þess að Visa Europe, þegar bankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu í árslok 2014.
Mikil gagnrýni
Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á eignarhlut bankans í Borgun. Það er mat bankaráðs að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum þar sem bankanum voru ekki veittar nauðsynlegar upplýsingar.
Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndu söluna opinberlega eftir að greint var frá því hvernig að henni var staðið. Sigmundur Davíð sagði málið klúður og undir það tók Bjarni, sem sagðist einnig styðja að rannsókn færi fram á því hvernig að málinu var staðið. Fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans sögðu af sér eftir gagnrýnina, meðal annars frá Bankasýslu ríkisins.
Íslenska ríkið er langsamlega stærsti eigandi Landsbankans með um 98 prósent hlut. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Landsbankans í fyrra að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli. Þá voru einnig sterkar vísbendingar um það að verðið hefði verið í lægri kantinum miðað við hefðbundna mælikvarða verðmata á sambærilegum fyrirtækjum.