Donald J. Trump, sem nú er að raða saman stjórnarliði sínu í Hvíta húsinu, er langt komin með að ná sáttum í máli fyrrverandi nemenda Trump University gegn honum, og er talið að hann muni þurfa að greiða 25 milljónir Bandaríkjadala vegna þessa, eða sem nemur um þremur milljörðum króna.
Samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC í dag, þá hafa lögmenn Trumps sótt það stíft að undanförnu að ná sáttum í málinu, en málsmeðferð í dómsal hefst í einu málinu 28. nóvember í San Diego, að óbreyttu.
Málið snýst um það, að nemendur sem greiddu á bilinu 28 til 35 þúsund Bandaríkjadali í skólagjöld, telja sig hafa verið svikna þar sem ekkert af því stóðst sem auglýst var þegar Trump University auglýsti námskeið skólans árið 2005.
Sérstaklega beinast spjótin að auglýsingum þar sem tekið var fram að Trump myndi sýna nemendum galdrabrögðin að baki árangri á fasteignamarkaði. Í stað þess að fá innsýn í „galdrana“ hjá Trump, þá fengu nemendur að horfa á fyrirlestra þar sem Trump fór yfir viðskiptaferil sinn, og veldið sem hann tók við af foreldrum sínum.
Engin dýpt var að baki námskeiðum skólans, og var hann strax gagnrýndur harðlega fyrir að vera yfirborðskenndur og sviksamlegur í sinni nálgun að háskólastarfinu.
Trump University hætti allri starfsemi árið 2010, og hefur Eric Schneiderman, saksóknari í New York, sagt að skólinn hafi verið „svikamylla frá upphafi til enda“. Hann hefur leitt málsóknir gegn Trump vegna starfseminnar hjá Trump University.
Trump sagðist aðspurður í júní síðastliðnum reikna með að semja um málið, og eins og áður sagði, þá greindi BBC frá því í dag að Trump og lögmenn hans reyndu nú til þrautar að semja um málið.
Uppfært: New York Times hefur greint frá því, að Donald Trump hafi í dag samþykkt að greiða 25 milljónir Bandaríkjadala til þeirra sem voru að leita réttar síns, vegna svika Trump University. Málsóknirnar eru því úr sögunni og málunum lokið.