Félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og langstærsta hluthafa fjölmiðlafyrirtækisins 365, hefur keypt tæplega eitt prósent hlut í Högum, stærsta smásölufyrirtæki landsins á um 600 milljónir króna. Kaupin fóru fram í gegnum félagið SM Investments, en eini hluthafi þess er annað félag á vegum Ingibjargar. Frá þessu er greint íDV í dag.
Krúnudjásnin í Högum eru annars vegar Bónus-keðjan og hins vegar Hagkaup. Jón Ásgeir og fjölskylda hans stofnuðu Bónus á sínum tíma og faðir Ingibjargar stofnaði Hagkaup. Fyrirtækin tvö runnu svo saman á tíunda áratug síðustu aldar. Fyrir bankahrun voru Hagar í eigu Baugs, sem aftur var í eigu fjárfestingafélagsins Gaums. Það félag var í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu. Baugssamstæðan var ein sú skuldsettasta á Íslandi þegar hrunið reið yfir haustið 2008. Þann 11. mars 2009, nítján árum og ellefu mánuðum eftir opnun fyrstu Bónusverslunarinnar, synjaði Héraðsdómur Reykjavíkur Baugi um áframhaldandi greiðslustöðvun og í kjölfarið var óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við gjaldþrot Baugs tapaðist stærsti hluti veldisins sem þeir feðgar, Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson faðir hans, höfðu byggt upp. Högum, sem héldu á innlendum verslunarrekstri fjölskyldunnar, hafði reyndar verið skotið út úr Baugi sumarið 2008 og fyrirtækið fært inn í Gaum.
Á endanum yfirtók Arion banki fyrirtækið og seldi nýjum eigendum. Hagar urðu svo fyrsta fyrirtækið sem skráð var á markað á Íslandi eftir bankahrunið. Í dag er það að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða sem eiga um helming hlutafjár. Hagar keyptu nýverið lyfjasölufyrirtækið Lyfju af íslenska ríkinu á 6,7 milljarða króna.
Í DV í dag kemur fram að eini stjórnarmaður SM Investments sé Jón Skaftason. Hann er nánasti samstarfsmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og starfar fyrir fjárfestingafélagið South Molton Capital, sem áður hét Guru Capital. Það félag kom fyrir í Panamaskjölunum svokölluðu, en Kjarninn greindi frá því í aprílað félagið Guru Invest S.A. sem skráð er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og er með heimilisfesti í Panama, hafi fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir var skráður með prókúru í félaginu og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað.