Áhrifin af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu munu verða til þess að stjórnvöld þurfa að taka 122 milljarða punda meira að láni á kjörtímabilinu en til stóð. Þetta tilkynnti Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, í dag. Guardian greinir frá.
Hann sagði engu að síður að efnahagur Bretlands stæði sterkum fótum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgönguna úr ESB fyrir nákvæmlega fimm mánuðum síðan, en viðurkenndi að hægjast myndi töluvert á hagvexti á næsta ári, vegna minni fjárfestinga og minni einkaneyslu vegna hækkandi framfærslukostnaðar.
Hammond sagði að stjórnvöld þyrftu að ráðast í meiri vinnu til þess að útrýma fjárlagahalla. Áður hafði forveri hans í starfi, George Osborne, stefnt á að í lok þessa kjörtímabils yrði afgangur á fjárlögum. Þetta er ekki lengur markmiðið hjá stjórnvöldum, sem telja þá að ekki verði hægt að ná þessum áfanga í ríkisfjármálunum fyrir árið 2020, þegar kjörtímabilinu lýkur. Á móti ætlar Hammond að stefna á að lántökur ríkisins verði undir tveimur prósentum af vergri landsframleiðslu undir lok kjörtímabilisins og lækka nettó skuldir ríkisins á sama tíma.
Hagvöxtur á þessu ári verður 2,1% samkvæmt nýrri spá, en ekki 2% eins og spáð hafði verið í mars. Hins vegar hefur spáin fyrir næsta ár verið lækkuð úr 2,2% hagvexti niður í 1,4%. „Þetta er hægara auðvitað en við vildum óska, en engu að síður sambærilegt við spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Þýskaland, og hærra en spá um vöxt í mörgum nágrannaríkjum okkar í Evrópu, þar á meðal Frakklandi og Ítalíu,“ sagði Hammond. Hægari hagvöxtur myndi aftur á móti hafa áhrif á ríkisfjármálaáætlanir stjórnvalda og valda því að ríkið þurfi að taka miklu hærri lán en áður var áætlað.
Nú er gert ráð fyrir því að ríkið þurfi að taka 68,2 milljarða punda að láni á þessu ári, en ekki 55,5 milljarða eins og áður var talið. Á næstu fimm árum mun aukinn lánakostnaður ríkisins nema 122 milljörðum punda meira en gert var ráð fyrir í spánni áður en Bretland ákvað að yfirgefa Evrópusambandið.