Forystufólk Viðreisnar, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Bjartrar framtíðar fundar nú í Alþingishúsinu um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanna Vinstri grænna.
Katrín sagði í fréttum RÚV fyrr í dag að flokkarnir þyrftu aðeins lengri tíma til að ljúka samræðum um framhaldið, en á fundinum sem nú stendur yfir mun skýrast hvort stjórnarmyndunarviðræðum verður framhaldið eða ekki.
Eins og greint var frá á Vísi í dag, þá ræddi Katrín við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um stjórnarmyndunarviðræðurnar og hvernig þær hefðu gengið til þessa.
Katrín fékk umboð til að reyna að mynda ríkisstjórn eftir að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sigldu í strand.