Framsóknarflokkurinn er tilbúinn til að þess að taka þátt í að mynda ríkisstjórn með Vinstri grænum ef eftir því verður kallað, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, í viðtali við RÚV. Svo gæti farið að hann kalli saman þing, þrátt fyrir að ekki hafi náðst að mynda ríkisstjórn á þeim tæpa mánuði sem liðinn er frá því að kosið var til Alþingis. Afgreiða þarf fjárlög fyrir næsta ár og skammur tími er til stefnu, eins og augljóst er.
Í gær varð ljóst að ekki tækist að mynda ríkisstjórn fimm flokka undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna. Yfir 30 manns höfðu tekið þátt í málefnavinnu í stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingarinnar. Upp úr viðræðunum slitnaði að lokum, meðal annars þar sem of langt var á milli í áherslum flokkanna, einkum Vinstri grænna og Viðreisnar. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, nefndi í viðtali við Kastljósið í gær helst landbúnaðar-, sjávarútvegs-, og skattamál sem helstu deilumál. Hann hafði samband við Katrínu og sagðist ekki hafa góða sannfæringu fyrir því að þetta gæti gengið upp, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Það mun skýrast í dag hvort Katrín reynir til þrautar að mynda ríkisstjórn, og þá með öðru mynstri en þeim fimm flokkum sem ekki náðu að mynda ríkisstjórn. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn kemur til greina, og einnig fleiri samstarfsmöguleikar.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur ekki ennþá veitt neinum öðrum umboðið en Katrínu. Eins og kunnugt er hafa nú tvær tilraunir til að mynda ríkisstjórn runnið út í sandinn. Fyrst fékk Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, umboð til að mynda ríkisstjórn og reyndu forystumenn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar að ná saman, en allt kom fyrir ekki. Þá fékk Katrín möguleika á að leiða viðræður sem nú eru sigldar í strand, eins og áður sagði.
Líklegt er að það skýrist í dag, hvaða stefnu málin taka.