Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur ákveðið að veita engum einum ákveðnum formanni stjórnarmyndunarumboðið að sinni. Þetta kom fram í tilkynningu sem forsetinn las upp á fundi með fréttamönnum rétt í þessu.
„Skynsamlegast er að forystufólk flokkanna á þingi kanni óformlega næstu daga hvers konar samstarf sé mögulegt enda eru slíkar viðræður þegar hafnar. Í því sambandi árétta ég mikilvægi þess að stjórnmálamennirnir rísi undir þeirri ábyrgð sem þeim er lögð á herðar, að sjá til þess að í landinu sé ríkisstjórn sem meirihluti á Alþingi geti sætt sig við.“
Guðni sagðist vera bjartsýnn á að þessi leið gæti skilað árangri, og sagðist hafa sitthvað fyrir sér í því. Hann hafi talað við alla leiðtoga flokkanna í morgun. Hann sagðist vænta þess að um helgina eða í byrjun næstu viku hafi línur skýrst og unnt verði að ákveða næstu skref.
Stjórnarmyndunarumboð er ekki formlegur gjörningur, minnti forsetinn á. „Þetta er óformleg yfirlýsing um það að forseti leiti til tiltekins stjórnmálaleiðtoga eða einhvers annars að leiða viðræðru um stjórnarmyndun. Stundum er það þannig að það er ekki vænlegast að einhver einn hafi það á hendi.“
Hann segist hafa beðið Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, um að kanna hvort hún hefði aðra kosti til myndunar ríkisstjórnar áður en til þessarar leiðar kom. Hann sagðist hafa velt þessum kosti fyrir sér um stund.
Forsetinn minnti einnig á þá skoðun sína að það þyrfti að fara að kalla saman þing fljótlega.