Rússar munu að öllum líkindum koma í veg fyrir að OPEC-ríkin samþykki minni olíuframleiðslu á miðvikudag. Samtök olíuútflutningslanda reyna nú að bjarga samkomulaginu sem gert var í september um að takmarka framleiðslu olíu í heiminum til þess að hækka olíuverð á ný.
Olíuverð er helmingi lægra í dag en það var um mitt ár 2014 og þess vegna telja OPEC-ríkin mikilvægt að setja þak á olíuframleiðslu í heiminum. Nú verða til að jafnaði 33.64 milljónir tunna af olíu á dag í OPEC-ríkjunum en olíuríkin vilja takmarka framboðið við 32,5 til 33,0 milljónir tunna á dag. Ljóst er að Rússland og önnur olíuframleiðsluríki þurfa að taka þátt í aðgerðunum svo þær skili tilætluðum árangri, samkvæmt frétt Reuters.
Fundur ráðherra aðildarríkja OPEC 30. nóvember átti að ganga frá samkomulaginu um framleiðsluskerðingu en undanfarna daga hefur komið í ljós að ágreiningur um samkomulagið kann að vera of mikill, ekki aðeins utan OPEC heldur einnig innan samtakanna.
Áhrifamesta ríkið innan OPEC er Sádi-arabía, en til samtakanna tilheyra fjórtán olíuframleiðsluríki. Auk Sádi-arabíu eru það Alsír, Angóla, Ekvador, Gabon, Indónesía, Íran, Írak, Kúveit, Líbía, Katar, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, og Venesúela. Saman standa ríkin undir meira en 33 prósent af heimsframleiðslunni. Olíuframleiðsluríki eins og Brasilía, Bandaríkin, Rússland og Noregur standa utan OPEC.
Óvissan um hvort samkomulagið muni verða að veruleika varð til þess að verð á hráolíu (Brent) lækkaði um tvö prósent í morgun. og stendur í um 47 dollurum á tunnuna. Reuters hefur eftir greinendum bankanna Morgan Stanley og Macquarie að líklega muni olíumarkaðurinn leiðrétta sig snarlega ef OPEC-ríkjunum mistekst að komast að samkomulagi og tunnuverðið fari jafnvel niður fyrir 35 dollara.
Undanfarin ár hefur olíuframleiðsla í heiminum aukist mikið. Eftirspurnin árið 2016 er að jafnaði 94,40 milljón tunnur á dag, samkvæmt mánaðarlegri skýrslu OPEC sem kom síðast út í október. Talið er að eftirspurnin muni vaxa um 1,22% á milli ára og verða 95,56 milljón tunnur á dag að jafnaði árið 2017.
Framboðið meðal þeirra ríkja sem ekki eru í OPEC hefur minnkað á árinu 2016 um 1,19%. Stærsta einstaka olíuframleiðsluríki í heimi utan OPEC er Bandaríkin sem sendir nú að jafnaði 13,62 milljón tunnur af olíu á markað á dag. Á undanförnum fimm árum hafa Bandaríkin tvöfaldað framleiðslu sína og framleiða nú álíka mikið og árið 1985. Rússar koma þar á eftir en þar eru framleiddar að jafnaði 11,04 milljón tunnur á dag.
Óvenjulegur fundur
Fundur OPEC, ef af honum verður, er um margt óvenjulegur, þar sem ríkin hafa í reynd með sér samráð á risavöxnum markaði með olíu, sem síðan hefur mikil og djúp afleidd áhrif á gang efnahagsmála í heiminum.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur sveiflast á bilinu 47 til 50 Bandaríkjadalir á tunnu síðastliðna sex mánuði eftir að það hækkaði um ríflega helming frá því að það náði lágmarki í janúar síðastliðnum. Þá var það komið í 26 Bandaríkjadali, eftir að hafa verið rúmlega ári fyrr í 110 Bandaríkjadölum. Undanfarin tvö ár á olíumarkaði hafa því verið mikil rússíbanareið fyrir olíuframleiðsluríki. Mörg þeirra, einkum þau sem voru með veika innviði fyrir, hafa farið illa út úr verðfallinu, og má sérstaklega benda á Brasilíu og Venesúela í þeim efnum.
Þetta mikla verðfall á olíu hefur hins vegar komið sér vel fyrir mörg önnur ríki eins og Ísland. Dregið hefur úr verðbólguþrýstingi erlendis frá, sökkum þessa, og þá hafa útgerðarfyrirtæki og flugfélög notið góðs af því að stór kostnaðarliður í rekstrinum, olíukaup, hefur orðið hagstæðari.
Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands er fundurinn gerður að umtalsefni. „OPEC-ríkin funda á ný í þessum mánuði en mikil óvissa er um niðurstöðu þess fundar og áhrif hennar á heimsmarkaðsverð á olíu. Horfur eru á hærra verði en í ágúst og því búist við minni lækkun á þessu ári en þá var áætlað og meiri hækkunum á næstu árum,“ segir í Peningamálum.
Tunnan af hráolíu á Bandaríkjamarkaði kostar nú 45 Bandaríkjadali og hefur lækkað lítillega í verði undanfarna daga.
Fylgjast má með þróun bensínverðs á Íslandi á bensínvakt Kjarnans.