Krónan, önnur stærsta lágvöruverslunarkeðja landsins, tilkynnti á Facebook-síðu sinni í gær að hún væri hætt að selja egg frá fyrirtækinu Brúnegg. Krónan rekur 17 verslanir víðsvegar um landið. Melabúðin í Reykjavík hafði áður tilkynnt á sama vettvangi að hún ætlaði einnig að hætta að selja framleiðslu fyrirtækisins.
Ástæðan er Kastljós-þáttur sem sýndur var í gærkvöldi þar sem fjallað var um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja. Í þættinum kom fram að Brúnegg hefði, að mati stofnunarinnar, blekkt neytendur árum saman með því að notast við merkingar sem héldu því fram að eggjaframleiðsla fyrirtækisins væri vistvæn og að varphænur þess væru frjálsar. Í krafti þess kostuðu eggin um 40 prósent meira en þau egg sem flögguðu ekki slíkri vottun.
Kastljós fékk aðgang að gögnum um afskipti Matvælastofnunnar af Brúneggjum og í þeim kom í ljós að stofnunin hefur í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar. Það væri því að blekkja neytendur. Atvinnuvegaráðuneytið hafði líka þessar upplýsingar, en neytendum var ekki greint frá þeim.
Fyrir ári síðan hafi staðið til að taka yfir vörslu á hænum Brúneggja vegna ítrekaðra brota á lögum um meðferð dýra, meðal annars með því að vera með allt of marga fugla í eggjahúsum. Til að koma í veg fyrir vörslusviptinguna þurftu Brúnegg að slátra um 14 þúsund fuglum.