Auðjöfurinn Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, ætlar að sleppa takinu af viðskiptaveldi sínu að fullu og kynna fyrir fjölmiðlum hvernig hann ætlar að fara að því 15. desember næstkomandi. Þetta er haft eftir Trump í dag, meðal annars á vef Reuters.
Trump hefur boðað til blaðamannafundar ásamt fjölskyldu sinni 15. desember þar sem hann kynnir áform sín um hvernig hann ætlar að skilja að viðskiptahagsmuni sína og hagsmuni Bandaríkjanna.
„Ég ætla að halda rosalegan fréttafund í New York með börnunum mínum 15. desember og ræða þá staðreynd að ég ætla að yfirgefa viðskiptaveldið mitt frábæra að fullu til þess að geta einbeitt mér að því að stjórna landinu svo Ameríka verði frábær að nýju,“ sagði Trump.
Hefð er fyrir því í Bandaríkjunum að nýkjörnir forsetar segi sig frá öllum fyrirtækjarekstri og setji hlutlausa aðila yfir fyrirtækin á meðan þeir gegna embættinu. Það er hins vegar ekki lagaleg kvöð heldur óskrifuð regla.
Trump hefur áður sagt að hann sjái ekki hvernig hagsmunir hans sem eigandi stórra fyrirtækja með hagsmuni á alþjóðavísu muni skarast við starf hans sem forseti Bandaríkjanna.
Þegar vangaveltur voru um hvað yrði um fyrirtæki Trump í aðdraganda kosninganna var því lofað að börnin hans myndu taka við stjórnartaumunum til þess að fría Donald Trump ábyrgð og hagsmunum. Slíkt var harðlega gagnrýnt enda augljóst að slíkt myndi ekki fullnægja hefðinni.
„Þess vegna er verið að útbúa lögformleg skjöl sem skilja mig algerlega frá viðskiptarekstri. Forsetaembættið er mun mikilvægara,“ sagði Trump einnig.