Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 3.325 milljörðum króna í byrjun október mánaðar en það er minnkun frá mánuðinum á undan upp á 0,3 prósent. Um 21 prósent af eignum sjóðanna eru í erlendum verðbréfum, eða sem nemur um 724 milljörðum króna.
Íslensku lífeyrissjóðirnir eru nú 24 talsins en þeim hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum. Í dag tekur Birta lífeyrissjóður til starfa, en hann varð til við sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðsins. Heildareignir sjóðsins nema ríflega 310 milljörðum króna, eða sem nemur tæplega tíu prósent af íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Virkir sjóðfélagar eru um átján þúsund.
Innlendar eignir lífeyrissjóðanna nema um 2.607 milljörðum króna, samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands. Innlán sjóðanna námu 119 milljörðum í lok september á þessu ári en um áramótin voru þau rúmlega 150 milljarðar. Þau hafa því dregist saman um ríflega 30 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs.
Um 1.300 milljarðar í eignasafni lífeyrissjóðanna liggur í verðtryggðum skuldabréfum og 545 milljarðar í innlendum hlutabréfum. Þar af eru ríflega 140 milljarðar í gegnum hlutadeildarskírteini í fjárfestingasjóðum.
Útlán og eignaleigusamningar lífeyrissjóðanna námu samtals 223 milljörðum króna í lok september en um síðustu áramót var upphæðin fyrir þennan eignaflokk 179 milljarðar. Aukningin er því umtalsverð, eða sem nemur 44 milljörðum króna.
Erlendu eignirnar eru að langmestu leyti í hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum og síðan í beinni hlutabréfaeign. Samtals voru ríflega 100 milljarðar í hlutabréfum í lok september á þessu ár, en 596 milljarðar í hlutdeildarskírteinum í sjóðum. Frá því um áramót hafa eignir í erlendri mynt dregist saman um tíu milljarða króna, og má gera ráð fyrir að gengisstyrking krónunnar gagnvart helstu erlendu viðskiptamyntum spila þar inn í.