Verði nýr kjarasamningur kennara samþykktur af kennurum og sveitarstjórnum mun það setja fjárhagsáætlanir Vestmannaeyjabæjar í uppnám að mati Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur í sama streng og segir nýjan samning verða stóran bita fyrir mörg sveitarfélög.
Nú er verið að kynna kjarasamninginn sem forsvarsmenn sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara undirrituðu í húsakynnum Ríkissáttasemjara á þriðjudag fyrir kennurum og sveitarstjórnarmönnum. Samkvæmt fréttum var samið til eins árs og fá kennarar á endanum tæplega 11 prósent launahækkun í tveimur skrefum auk eingreiðslu að upphæð 204 þúsund krónur um áramótin.
Sumir kennarar hafa þegar lýst óánægju sinni með samninginn og sagt hann keimlíkur þeim samningum sem grunnskólakennarar hafa þegar fellt. Einhverjir kennara hafa látið verða af uppsögnum sem þeir höfðu hótað.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjabæ, segir í samtali við fréttavefinn Eyjar.net að kjarasamningarnir feli í sér mikinn kostnaðarauka fyrir bæinn. „Ef að fram fer sem horfir og þessir kjarasamningar sem voru undirritaðir í gær verða samþykktir þá er um hátt í 50 milljóna kostnaðarauka að ræða fyrir okkur. Það er alveg ljóst að við bætum því ekki við, nema að bregðast við með einhverjum hætti,“ er haft eftir Elliða.
Hann segir enn fremur að í fjárhagsáætlunum næsta árs, sem enn á eftir að samþykkja, sé gert ráð fyrir 41 milljón krónum í rekstrarafgang. „Þessir samningar þurrka þann afgang upp, og gott betur.“ Spurður um hvaða aðgerðir bærinn gæti farið í til þess að mæta auknum segir Elliði: „Í raun er bara allt undir.“
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir stöðuna svipaða í fleiri sveitarfélögum. „Við vissum að við værum að teygja okkur alveg til hins ýtrasta […] mér sýnist þetta vera staðan víða,“ er haft eftir Halldóri í Morgunblaðinu í dag. „Það breytir því ekki að við verðum að borga kennurum góð laun, en þetta tekur auðvitað á.“