Tveir þeirra manna sem ákærðir voru fyrir brot gegn gjaldeyrislögum í Aserta-málinu svokallaða, Gísli Reynisson og Markús Máni Mikaelsson Maute, hafa lagt fram kæru á hendur æðstu stjórnendum Seðlabanka Íslands fyrir að bera tvímenningana röngum sökum. Þetta kemur fram í nýrri bók eftir sagnfræðinginn Björn Jón Bragason, Gjaldeyriseftirlitið - Vald án eftirlits?. Greint er frá málinu í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að í kærunni sé einkum kallað eftir rannsókn á framgöngu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings bankans, og Ingibjargar Guðbjartsdóttur, forstöðumanns gjaldeyriseftirlits stofnunarinnar. Í blaðinu segir að fleiri einstaklingar sem hafi sætt rannsókn og kærum af hálfu Seðlabankans séu að kanna hvort að þeir ætli að kæra bankann. Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur skráð 471 rannsóknarmál vegna brota á gjaldeyrislögum frá því að það var sett á fót. Enginn hefur verið sakfelldur á grundvelli laganna en á þriðja tug mála hefur lokið með sátt eða álagningu stjórnvaldssektar.
Aserta-málið vakti athygli á sínum tíma og boðað var til sérstaks blaðamannafundar í höfuðstöðvum Ríkislögreglustjóra í janúar 2010 þar sem málið var kynnt. Mennirnir höfðu þá verið kærðir og eignir þeirra frystar.
Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, Gunnar Andersen, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Helgi Magnús Gunnarsson, þáverandi saksóknari efnahagsbrota og nú aðstoðarríkissaksóknari, voru á fundinum og var málið sagt fordæmalaust að umfangi.
Voru meint ólögleg viðskipti þeirra sögð hafa numið um þrettán milljörðum króna, og átt þátt í því að grafa undan gengi krónunnar.
Þegar fjórmenningarnir voru upphaflega ákærðir af sérstökum saksóknara í mars 2013 var ákært fyrir stórfellt brot á gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands en síðar var fallið frá stórum hluta málsins.
Eftir stóð þá ákæra vegna meintra brota á 8. grein laga um gjaldeyrismál þar sem segir að leyfi Seðlabankans þurfi til að eiga milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Í desember 2014 voru þeir sýknaðir af þeim hluta málsins sem eftir stóð og 18. febrúar síðastliðinn, rúmu ári síðar, var mönnunum tilkynnt að ríkissaksóknari ætlaði sér ekki að áfrýja málinu til Hæstaréttar.
Þorsteinn Már hefur einnig kært
Þetta eru ekki einu kærurnar vegna framferðis gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kærði þau Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur fyrir rangar sakargiftir í síðustu viku.Í kærunni segir að þau hafi ekki aðeins komið „rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum“ til leiðar heldur einnig komist undan því að koma „fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara við rannsókn í sakamáli embættisins“.
Málið snýst um kæru Seðlabankans á hendur Þorsteini Má til sérstaks saksóknara 9. september 2009 þar sem honum var gefið að sök að hafa brotið gegn gjaldeyrislögum með því að vanrækja skil á erlendum gjaldeyri sem Samherji eignaðist á tímabilinu 28. nóvember 2008 til 27. mars 2012. Arnór og Ingibjörg undirrituðu kæruna fyrir hönd Seðlabanka Íslands.
Málið á hendur Þorsteini Má og þremur öðrum starfsmönnum Samherja var fellt niður í september í fyrra. Þá hafði Þorsteinn Már margítrekað sakleysi sitt og Samherja í málinu og sagt gögnin sem hann hefði séð frá Seðlabankanum vera á misskilningi og vankunnáttu byggð.
Þorsteinn sagði í fyrra í samtali við Vísi að málið hefði haft gríðarlegt tjón í för með sér fyrir fyrirtækið en rannsóknin stóð yfir í á fjórða ár, eða frá því mars 2012.
Málið hófst með húsleitum sem starfsmenn Seðlabankans framkvæmdu í höfuðstöðvum Samherja bæði á Akureyri og í Reykjavík. Húsleitirnir voru framkvæmdar á grundvelli grunsemda um brot á lögum um gjaldeyrismál.
Í kærunni er bent á að meint brot starfsmanna bankans varði allt að tíu ára fangelsi og refsiauka um að minnsta kosti tvö ár ef sannað er að þeir hafi ætlað velferðarmissi fyrir þolanda.