Stjórnmálaleiðtogar, Ólympíufarar, vísindamenn og listafólk er í úrslitum í valinu á manneskju ársins hjá TIME tímaritinu í Bandaríkjunum. Tímaritið velur manneskju ársins á hverju ári og vekur valið jafnan athygli. Tilkynnt verður um valið á miðvikudaginn, en þangað til hefur úrslitalistinn verið gerður opinber.
Manneskjan sem verður fyrir valinu er talin hafa haft mest áhrif á fréttaflutning, til hins betra eða verra, á árinu sem er að líða.
Það kemur því kannski fáum á óvart að báðir forsetaframbjóðendur stóru flokkanna í Bandaríkjunum séu á lokalistanum. Hillary Clinton, sem fyrsta konan til að verða frambjóðandi annars stóru flokkanna, og jafnvel þótt hún tapað þá fékk hún meira en tveimur milljónum fleiri atkvæði en mótframbjóðandinn og verðandi forsetinn, Donald Trump.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, eru líka á listanum, sem og Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti og Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins UKIP.
Uppljóstrararnir í Flint í Michigan eru á meðal efstu ellefu, en þeir komu upp um blýeitranir í vatninu þar. Vísindamenn hjá CRISPR, sem hafa þróað byltingarkennda tækni við erfðarannsóknir, eru þar líka.
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, kemst á listann. Á þessu ári fékk Facebook á sig mikla gagnrýni í tengslum við falskar fréttir og meira en einn milljarður manna notar nú miðilinn í símanum á hverjum einasta degi.
Að lokum eru Simone Biles og Beyoncé Knowles á listanum. Tónlistarkonan Beyoncé er ekki síst þar vegna plötunnar Lemonade og tónleikaferðalags um heiminn. TIME segir hana hafa haldið áfram að koma á óvart og ögra, auk þess sem hún hafi notað áhrif sín til að tala um kynþáttamisrétti, ofbeldi lögreglu og femínisma.
Simone Biles skráði sig svo á spjöld sögunnar á sínum fyrstu Ólympíuleikum í sumar, þar sem þessi nítján ára gamla fimleikastjarna vann til ferna gullverðlauna og einna bronsverðlauna, og styrkti stöðu sína sem sú besta í heiminum.
Merkel fyrir valinu í fyrra
Í fyrra var það Angela Merkel Þýskalandskanslari sem var valin manneskja ársins. Tímaritið sagði að á árinu 2015 hafi ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum stigið upp þegar spurningar vöknuðu um það hvort Evrópa og Evrópusambandið lifðu af. Hún var þá þegar komin í ómissandi hlutverk í því að stjórna skuldakrísunum í Evrópu og hafi leitt Vesturlöndin í viðbrögðum sínum við innlimun Rússa á Krímskaganum og annað sem tengdist Úkraínudeilunni.
En árið 2015 hafi mögulegt gjaldþrot Grikklands ógnað tilveru evrusvæðisins, innflytjenda- og flóttamannakrísa hafi storkað hugmyndum um opin landamæri, og að lokum hafi hryðjuverkin í París endurvakið þau viðbrögð að vilja skella í lás, byggja landamæraveggi og treysta engum. „Í hvert skipti steig Merkel upp,“ sagði tímaritið í umfjöllun sinni.