Hæstaréttardómarinn Markús Sigurbjörnsson segist ekki hafa verið vanhæfur til þess að dæma í málum sem snúa að hruni fjármálakerfisins þrátt fyrir að hafa verið eigandi hlutabréfa Glitnis og fleiri íslenskra fyrirtækja fyrir hrunið. Þetta kemur fram á vef RÚV, en eins og fram kom fyrr í dag átti Markús hlutabréf í Glitni fyrir hrunið.
Í kynningu á umfjölluninni sem Kastljós verður með á dagskrá í kvöld, segir að dómarar við Hæstarétt séu æviráðnir og laun þeirra með því hæsta sem gerist hjá hinu opinbera til að tryggja sjálfstæði þeirra. „Eignist dómarar hlutabréf, ber þeim að tilkynna Nefnd um dómarastörf það - og séu þau meira en þriggja milljóna króna virði, verður dómarinn að fá heimild fyrir þeirri eign frá nefndinni. Engin gögn finnast hjá nefndinni um að Markús hafi tilkynnt um sölu hlutabréfanna árið 2007. Þá seldi hann þau fyrir 44 milljónir króna. Í kjölfarið fjárfesti hann í gegnum einkabankaþjónustu Íslandsbanka fyrir tæpar 60 milljónir króna. Engin tilkynning finnst um það heldur hjá nefndinni.“
Í dag segist Markús hafa tilkynnt nefndinni um hlutabréfaeign sína með bréfi, en samkvæmt því sem fram kom í fréttum finnast þau gögn ekki hjá fyrrnefndri nefnd.
Málið er til ítarlegrar umfjöllunar í Kastljósinu eins og fyrr segir.