Steinunn Guðbjartsdóttir, fyrrverandi formaður slitastjórnar Glitnis, segir það af og frá að gögn sem sýndu viðskipti Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara með hlutabréf í Glitni hafi komið frá slitastjórninni. „Þetta kemur ekki frá okkur. Ég hef aldrei séð þessi gögn.“ Í frétt á Vísi í gær sagði að gögnin væru frá slitastjórn Glitnis og sú fullyrðing var endurtekin í frétt um málið í fréttatíma Stöðvar 2 um kvöldið.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans voru gögn um viðskipti Markúsar aldrei hluti af þeim málum sem rannsökuð hafa verið af embætti héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara, vegna gjörninga sem áttu sér stað innan Glitnis. Því eru gögnin ekki komin þaðan heldur né eru þau hluti af málsgögnun sem lögð hafa verið fram í sakamálum sem höfðuð hafa verið vegna þeirra rannsókna.Greint var frá því í gær í fréttum Stöðvar 2 og í Kastljósi að Markús hefði átt hlutabréf í Glitni fyrir hrun og síðar fjárfest um 60 milljónum króna í verðbréfasjóði í rekstri Glitnis. Í Kastljósi var enn fremur greint frá því að Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem gegnt hefur embætti hæstaréttardómara frá árinu 2003, hafi einnig átt hlutabréf í Glitni um tíma á árinu 2007. Hann seldi bréf sín í lok þess árs og fjárfesti í verðbréfasjóði innan Glitnis. Í Fréttablaðinu í morgun var svo sagt frá því að hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir og Árni Kolbeinsson, sem nú er hættur störfum, hafi einnig öll átt hlutabréf í Glitni á árunum 2007 og 2008. Allir dómararnir fimm hafa dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.
Gögnin sem birt voru í gær sýndu samskipti Markúsar við eignastýringu Glitnis. Á meðal þeirra voru tölvupóstar og skjöl sem hann undirritaði til að veita heimild til fjárfestingar. Gögnin eru bundin bankaleynd og alls ekki aðgengileg mörgum. Starfsmenn slitastjórnar Glitnis eftir hrun hafa þó mögulega getað flett þeim upp í kerfum bankans auk þess sem starfsmenn eignastýringar Glitnis fyrir hrun gátu nálgast þau.
Markús sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann segist hafa tilkynnt nefnd um dómarastörf um sölu á hlutabréfum í sinni eigu þegar viðskiptin áttu sér stað, og hann hafi fengið leyfi nefndarinnar þegar honum áskotnuðust þau. Hann hafi hins vegar ekki þurft að tilkynna um hvernig hann ráðstafaði peningunum eftir söluna.
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, sagði við RÚV í morgun að ljóst sé að upplýsingum um hlutabréfaeign dómara hafi verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega auka möguleika á því að mál verði endurupptekin.